Rampur frá Hádegismóum opnaður að nýju

Rampur frá Hádegismóum inn á Suðurlandsveg til norðurs hefur verið opnaður að nýju en hann  hefur verið lokaður fyrir umferð undanfarið vegna framkvæmda við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi.

Verkefnið við tvöföldun Suðurlandsvegarins á þessum stað hófst í vor en verktakinn er Óskatak. Verkið felst í að ljúka við gerð eystri akbrautar Suðurlandsvegar, að tengja nýja akbraut í norður og suðurenda við núverandi vegakerfi, hækka brunna og tengja niðurföll við núverandi lagnir, uppsetning ljósa og vegriða. Þá er einn stærsti hluti framkvæmdarinnar að breikka núverandi undirgöng þar sem Krókháls fer undir Suðurlandsveg.

Nú stendur yfir vinna við tvöföldun undirganganna. Vinna við norðurhluta ganganna klárast eftir þrjár til fjórar vikur. Eftir það færist umferð um Krókháls yfir á nyrðri akreinina meðan verktaki lengir göngin til suðurs. Umferð um Krókháls undir Suðurlandsveg er á einni akrein á framkvæmdatíma undirganganna og umferð stjórnað með ljósum.

Áætlað er að framkvæmdum verði lokið nú í haust og er verkið nokkurn veginn á áætlun.