Rangfærslur - vanþekking

Í tilefni fréttar hér á vefnum um sérstæða og talsvert ógnvekjandi staðsetningu og frágang metangasgeyma aftan undir jeppa, hefur fréttavef FÍB borist eftirfarandi stóryrt athugasemd frá Walther Hallgrími Ehrat. Hvernig Walther Hallgrímur velur að setja fram rök sín er hans mál, en myndirnar sem birtust með upphaflegu fréttinni tala sínu máli. Walther Hallgrímur gerir af lítillæti sínu mikið úr meintri þekkingu sinni á metanbreytingum bíla og vanþekkingu FÍB á því sama. Hvorugt skal hér reynt að hrekja - aðeins minnt á að FÍB hefur aðgang að bestu upplýsingum um hvaðeina sem varðar bifreiðar og orkugjafa þeirra, bæði hér innanlands og erlendis.            -Ritstj.

„Til FIB.
Varðandi gagnrýni ykkar á ísetningu metan búnaðar í fréttablaði ykkar undir fyrirsögninni „Er þetta í lagi“ og undirfyrirsögn „Fékk þessi frágangur viðurkenningu?“ ásamt yfirlýsingum formanns Runólfs Ólafssonar 18. Ágúst á RÚV „Sprengihætta í metanbílum“.

Frétt ykkar og ásakanir um lélegan frágang er full af rangfærslum og lýsir vanþekkingu  á notkun og ísetningu metanbúnaðar. Það hefði verið hægðarleikur fyrir ykkur að kynna ykkur málin áður en þið farið af stað með óígrundaðar ásakanir gegn metanbreytinga verkstæðum. Þið ýjið að því að á ferð séu bifreiðar með hættulegan metan búnað, sem leikmenn, án nokkurrar sérfræði þekkingar á sviðinu og fréttastofur blaða og sjónvarps grípa þetta á lofti þar sem þær eru auðvitað aðeins á höttunum eftir æsifréttum en hafa minni áhuga á sannleikanum og það er leitt að FIB sem heldur því fram að vinni að hag bifreiðaeiganda, spili með í svona æsimennsku, án þess að skoða málin betur áður en þessu er slengt fram í fréttablaði og sjónvarpi.

Það þarf ekki mikið til að skapa hræðslu á meðal fólks við nýja tækni, fólk sem annaðhvort nennir ekki eða hefur takmarkaða getu til að þekkja tæknimál og treystir á upplýsingar í blöðum og sjónvarpi. Þetta fólk hefur ykkur tekist með þessum æfingum ykkar að hræða frá því að breyta eða þora jafnvel að koma nálægt metanbifreið eins og fjölmörg blogg og pistlar sýna sem birtust á netinu í kjölfar fréttar ykkar. Ég bendi ykkur á að lesa blogg sem fylgja fréttum mbl.is t.d. Þó margt af þessu fólki tali af vanþekkingu þá er ekki hægt að afskrifa að það er búið að móta neikvæðar skoðanir þess með svokallaðri fréttagrein ykkar. Venjulegt fólk er allajafna ekki að kryfja fréttir til mergjar og heyrir bara sprengihætta og metan og afskrifar þetta allt sem hættulegt þó það hafi sjálfsagt verið ætlan ykkar að gera einungis sumar metan ísetningar vafasamar.

Ýmsar tækninýjungar með nýja orku til að knýja bifreiðar hafa komið til í gegnum árin og áríðandi að styðja allar tilraunir til þess. Það eru mörg öfl í heiminum sem vilja allt til gera að haldið verði áfram að nota bensín og dísel á bifreiðar þar sem allt annað stríður gegn hagsmunum þeirra. Það hefði verið hægðarleikur fyrir ykkur að kynna ykkur aðeins málin áður en þið birtuð þetta og jafnvel birta mótsvör með grein ykkar en það gerðuð þið ekki. Þetta var einungis birt með neikvæðu hliðar ykkar hugmynda og maður veltir fyrir sér hver var tilgangur ykkar? FIB blaðið hefur einnig birt jákvæðar fréttir um metan þá oft unnið úr erlendum greinum en þegar kemur að Íslenskri starfsemi með metan þá er skrifað nú á neikvæðan hátt um það? Þið skrifið ekki einusinni um hvernig fólk eigi að geta forðast, að ykkar mati, „léleg“ vinnubrögð við ísetningu. Það eina sem þetta gerir er að fæla fólk frá að skoða nýja möguleika.
Ég bendi á blogg Einars Vilhjámssonar „Hverjir reyndu að drepa metanvæðinguna?“

Þið hljótið að vita að verkstæði sem framkvæma metan breytingar hafa fengið til þess löggildingu og verða að sýna fram á menntun og þekkingu á reglum og kröfum er varða metan ísetningu. Reglur eru að evrópskri fyrirmynd þar sem áratugareynsla er af notkun metan gas Ch4 eða CNG (Compressed natural gas) CBG (Compressed bio gas) eða NGV (Natural gas vehicle). Nú eru 10 verkstæði viðurkennd fyrir metan ísetningar og með frétt ykkar hafið þið gert þau öll vafasöm og vegið að starfsheiðri þeirra sem vinna slíkar breytingar.
Um verkstæði: http://metan.is/Breyting-bila---uppfaersla/

Ég er ekki sérfræðingur í metan ísetningum eða virkni metans en ég get þó fundið allar staðreyndir á stuttum tíma sem hrekja fréttamennsku  ykkar og þar sem þið virðist ekki hafa vilja til að kynna ykkur málin skal ég sýna ykkur mótsvör við tilhæfulausum aðdróttunum ykkar hér.

Úr grein fréttablaðs FIB.
„Að breyta bensínknúnum bíl í metanknúinn er meiriháttar breyting sem kallar á sérstaka skoðun. Í henni hlýtur að eiga að ganga úr skugga um að allur búnaður er þannig að ekki stafi af honum bruna- eða sprengihætta“
Svar til FIB.
Þessi umrædda bifreið fór beint eftir breytingu til sérskoðunar hjá Frumherja. Þar eru alvöru sérfræðingar sem hafa þekkingu á ísetngu og kröfum til ísetningar sem taka þessa breytingu út. Í frétt ykkar eruð þið annaðhvort að ýja að því að þessi bifreið hafi ekki verið sérkskoðuð eða þá að þið gerið lítið úr störfum skoðunarmanna Frumherja. Þið ættuð að kynna ykkur störf skoðunarmanna og þekkingu áður en þið gerið ráð fyrir því að þeir kunni ekki sitt fag. Ég er viss um að Frumherji væri til í að sýna ykkur verklag sitt við skoðun ef þið sýnduð því áhuga á að vita það. Þið segið í fréttinni að skoðunarmaður hljóti að skoða bílinn út frá þeirri forsendu að ísetningin raski ekki öryggi og kröfum framleiðanda bílsins en þrátt fyrir það haldið þið áfram að gagnrýna ísetninguna í grein ykkar og sjónvarpsviðtali.
Úr grein fréttablaðs FIB.
Tveimur stórum gaskútum hefur verið komið fyrir afturundir bílnum eins og sjá má af myndunum. Kútarnir eru mjög síðir og augljós hætta á því að þeir geti orðið fyrir höggi
Svar til FIB.
Þessi staðsetning eldsneytistanka er alvanaleg á bifreiðum hvort sem það er bensín eða dísel. Munurinn er að gastankar eru margfalt sterkari en vanalegir bensíntankar bifreiða. Í þessum tönkum er 0.8cm þykkt stál og auk þess styrking úr koltrefja efnum utan um kútinn. Í árekstri eða við annað hnjask er hættan á að gat komi á tanka af þessum styrkleika hverfandi og mun minni en á bensíntank. Reglugerð um gerð og búnað bifreiða segir að gastankar megi ekki skaga út fyrir útlínur bifreiðar. Þessir gastankar eru ekki niður fyrir drifkúlu bifreiðarinnar og uppfylla kröfur reglugerðar sem byggð er á sambærilegum kröfum í Evrópu. Hvergi er gerð krafa um að smíða hlífar yfir kútana eða loka þá af frá vegi á einhvern hátt enda ekki þörf á og það vita menn sem þekkja styrkleika kútanna.
Hlíf væri einungis að veita gerviöryggi og fela kútana fyrir fólki og ljósmyndurum sem liggja í leyni til að gera hluti tortryggilega með aðstoð FIB fréttablaðs. Sumir mála kútana svarta til að gera þá minna áberandi og aðrir velja að sýna að þeir þora að prófa nýjungar í tækni og fela kútana ekki.
Ef gat kæmi að tanknum er hættan á íkveikju jafnframt mun minni á metan gasi en bensíni. Metan gas er öruggara eldsneyti en bensín. Sjálfkveikimark metans er talsvert hærra en bensíns eða 450°c á móti að bensín þarf einungis 300°c til að koma af stað sjálfkveikju. Til að metan geti yfirhöfuð brunnið er mjög þröngt svið af hlutfalli þess í andrúmslofti sem þarf eða 5-15%. Ef meira eða minna er af metan í lofti þá brennur það ekki og er t.d. hægt að sjá video á youtube þar sem hreint metan er notað til að slökkva eld. Til að skjóta gat á svona tank þarf mjög öflugan riffil. Venjulegar byssur duga ekki til að gata tankinn. Í videói hér á eftir er sýnt þegar skotið er gat á tankinn og gasið lekur út á innan við mínútu. Það verður ekki sjálfkrafa sprenging þó það komi gat á svona kút heldur blæs gasið úr tanknum og leitar upp á við og eyðist. Hlutfall þess í andrúmslofti verður strax of veikt til að það geti brunnið. Í tanknum er innbyggður þrýstiloki sem hleypir gasi út ef tankur lendir í eldhafi frá bensínleka. Óblandað metan sem sprautast á eld með litlu eða engu súrefni í umhverfi sínu mun slökkva eldinn þar sem hreint metan getur ekki brunnið.
Kynnið ykkur eftirfarandi videó:Um NGV ísetningar: http://www.youtube.com/watch?v=_TN_CKsGA9Q
Riffilskot á CNG tank: http://www.youtube.com/watch?v=irvktfQvu4M&feature=related
Um öryggi metans:  http://metan.is/Metan-eldsneyti/Hvad-er-metan/Oryggi-metans/

Úr frétt FIB.
Þegar betur er að gætt kemur svo í ljós til viðbótar að úttak gaskútanna eru alls óvarin fyrir grjótkasti og öðrum ákomum.
Svar til FIB.
Ef myndin er tekinn frá hlið getur virst að úttak og segulokar séu jafnvel í hættu vegna grjótkasts frá hjóli. En reyndin er ekki svo! Stútarnir eru 35cm frá miðlínu hjóls sem er langt frá því að vera í hættu vegna grjótkasts. Reyndar ber ekki undirvagn bílsins nein merki um neitt grjótkast yfirhöfuð. Ef svo ólíklega vildi til að grjóthnullungur kastaðist á segulrofa eða leiðslur þá yrði það að vera töluvert högg til að valda skemmdum þar sem kranarnir eru mjög sterkbyggðir  og leiðslur með innbyggða lykkju til að leyfa hreyfingu án þess að rofna. Ef svo íllilega vildi til að tækist að brjóta segulrofa af þá lokast einfaldlega gaskúturinn með innbyggðum þrýstiloka.
Hér hafið þið af algerri vanþekkingu ýjað að því að þetta geti ekki verið nógu góð ísetning. Þarna gerið þið lítið úr því kunnáttufólki sem setur búnaðinn í og þeim sem tekur hann út í skoðun á vegum yfirvalda. Þið eruð að gera ykkur að sjálfskipuðum „sérfræðingum“ en þið hafi ekkert vit á málinu og hafið ekki kynnt ykkur ísetninguna og það sem verst er skaðið þá  ímynd metans sem umhverfisvænt og skaðlaust ódýrt eldsneyti .

Úr frétt FIB.
Spennurnar sem halda gasgeymunum virðast heldur ekki allt of traustvekjandi.

Svar til FIB.
Þetta er nú heldur undarleg setning! Hvaða vit hafið þið á því eftir að skoða mynd hvort þetta séu nógu góðar festingar. Krafa er um að festingar haldi að minnst 10 sinnum þyngd kútana. Það eru tvær spennur sem halda hverjum kút. Bogarnir sem koma undir kútana eru úr 4.5mm smíðajárni með brotþol á 4230kg og boltarnir eru 8mm með brotþol á 5124kg. Styrkur einnar spennu er yfir 4tonn Þannig að styrkur beggja spennufestingana er nærri  8.5 t. (8460kg) eða 169 föld þyngd kútana og langt umfram það sem gerð er krafa um. Bifreiðin sjálf er 2500kg og það mætti hengja alla bifreiðina upp á einni spennu og eiga mikið eftir.

Úr frétt sjónvarps 18.08
Fullyrt er að kútarnir séu 200kg.
Sprengihætta af metanbílum
Svar til FIB.
Hver kútur er reyndar 50kg!  Alls eru tveir kútar 100kg sem er víðsfjarri þessari fullyrðingu fréttarinnar. Til að koma kútum fyrir var fjarlægt varadekk, festingar og tjakkur  sem vó alls 35kg. Einnig er bensíntankur bifreiðarinnar 105ltr alls eða um 80kg. Það er núna óþarfi að aka um með fullan bensíntank og því yfirleitt ekki meira en um 20-30kg af bensíni í bílnum á hverjum tíma. Í reynd er því aukinn þyngd bifreiðarinnar lítil sem enginn og það má líka hafa í huga að þetta er amerísk bifreið með mikla burðargetu skráð 8 manna og því hefur þessi  búnaður enginn áhrif á akstureiginleika bifreiðarinnar augljóslega þar sem hún er hönnuð fyrir mun meiri burðargetu. Yfirlýsingar um skerta akstureiginleika eiga við enginn rök að styðjast og augljóslega er ekki hætta á því fyrr en bifreið er farinn að vera lestuð umfram hámarks burðargetu og hlass langt frá þyngdarmiðju sem á augljóslega ekki við í þessu tilfelli.

Ég læt þetta duga hér en af nógu er að taka þegar að rangfærslum um þessa breytingu kemur. Óskandi væri að FIB væri leiðandi í því að eyða misskilningi og hvetja til notkunar á öðrum orkugjöfum en þeim hefðbundnu frekar en að hræða almenning eins og þið hafið nú gert.
Réttast væri að þið birtuð þetta bréf mitt í fréttabréfi ykkar eða vefsíðu eins og þið birtuð myndir sendar af „félagsmanni“ ykkar í grein fréttablaðsins. Ef þið viljið ekki birta bréfið þá væri a.m.k. óskandi að þið leiðréttuð rangfærslur ykkar nú og kæmuð með greinar þar sem þessi breytingamál væru rædd á vitrænan hátt og málefnalega með aðkomu menntaðra sérfræðinga í greininni svo sannleikur sé sagður en ekki tilhæfu lausar ásakanir úr lausu lofti gripnar.

Undirritað.
Walter Hallgrímur Ehrat
Drangagötu 1. 220 Hafnarfirði.