Regluverkið í kringum tjónabíla er ófullnægjandi

Regluverkið í kringum tjónabíla er ófullnægjandi. Eigendur slíkra bíla lenda í því að ekki hafi verið gert við bílinn eftir tjónið á tilskilinn hátt og verða því fyrir fjárhagstjóni. Málið er mikið öryggis- og neytendamál. Þetta segja framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) og framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Morgunblaðisins um þetta mál.

Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL, hefur verið að rýna og kortleggja málið þar sem verkstæði BL hefur fengið til sín tjónabíla þar sem eigendur eru ómeðvitaðir um ástand bílsins sem hefur ekki verið gert við samkvæmt stöðlum framleiðanda.

 „Við höfum fengið tilvik þar sem tjónabíllinn hefur verið innan ábyrgðartíma framleiðandans og fólk talið að það væri að fara með bílinn í ábyrgðarviðgerð á ákveðnum hlutum en situr svo uppi með bíl sem þarf að skipta um mjög dýra hluti í og það er engin ábyrgð þar sem bíllinn er tjónabifreið sem var ekki rétt gerð upp. Þá situr eigandinn uppi með skaðann, þetta er stórt neytendamál,“ segir Ingþór í samtali við Morgunblaðið. Hann segir auðvelt að komast upp með að fylgja ekki stöðlum framleiðanda.

Ingþór segir mikið um útflutning á tjónabifreiðum og að gert sé við þá ytra eða þeir fari í partasölu en sömuleiðis að íslenskir aðilar taki það í sínar hendur. Hann segir jafnframt tíðkast að bílar fái skráningu frá aðilum með burðarvirkisvottorð til að geta skráð bílinn aftur á götuna þar sem liggja þarf fyrir að bíllinn hafi farið í viðgerð.

 „Það er ekki hægt að fá skráninguna nema það sé verkstæði sem vottar það. Við höfum þó séð dæmi um að menn hafi keypt slíka skráningu þótt það hafi ekki verið sama verkstæði og gerði við bílinn.“

Félag íslenskra bifreiðaeigenda mun funda með stjórnvöldum á nýju ári um regluverkið í kringum tjónabíla.

„Við fundum með Samgöngustofu og Neytendastofu strax á nýju ári upp á að reyna að finna flöt til að skerpa á þessum reglum. Það væri eðlilegt að það væri eitthvert regluverk í kringum þetta þannig að það sé tryggt að bílar sem eru illa farnir fari ekki aftur í umferð,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda í samtali við Morgunblaðið.