Rekstrarkostnaður við bíl Ásmundar rúmlega tvær milljónir á ári

Mynd -  Facebook Ásmundar Friðrikssonar
Mynd - Facebook Ásmundar Friðrikssonar

Morgunútvarpið á Rás 2 fékk Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, til að reikna hvað það kostaði að reka bíl sömu tegundar sem Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, á í eitt ár. Samkvæmt útreikningi FÍB þá kostar það rúmar tvær milljónir á ári að reka Kia Sportage þingmannsins miðað við notkun hans á bílnum í fyrra. Ásmundur fékk í fyrra 4,6 milljónir króna í aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi.

Niðurstaða útreikningar FÍB leiðir í ljós að reksturinn með fjármagnskostnaði kostar 2,07 milljónir á ári. Væri bíllinn hins vegar nýr næmi kostnaðurinn ríflega 2,4 milljónum króna á ári.

Bíllinn er Kia Sportage- jepplingur, fjórhjóladrifinn dísilbíll, sem kom á götuna í mars 2016. Samkvæmt bifreiðaskrá kaupir Ásmundur bílinn notaðan í lok  nóvember sama ár. Þess má geta að nýr bíll af þessari gerð kostaði í maí 2016 6,7 milljónir króna. Þessi verðlækkun kemur m.a. til vegna gengisþróunar.

FÍB reiknar með að bíllinn falli meira í verði á ári hverju en meðalbíll, enda hefur komið fram að Ásmundur ekur mjög mikið. Í fyrra ók hann tæpa 48 þúsund kílómetra. Því reiknar FÍB með 18% verðfalli á milli ára, sem þýðir að ásett verð á bíl Ásmundar gæti í dag verið um 3,8 milljónir króna.

Nánari útreikningar koma fram í töflunni hér undir.  Annars vegar er um að ræða útreikning miðað við verð á nýjum Kia Sportage hjá Öskju hf. og hins vegar miðað við áætlað endursöluverð á tveggja ára bíl sem búið er að aka mikið.

Þess má geta að sambærilegur bíll í dag kostar um 5,5 milljónir króna en í maí 2016 kostaði bíllinn 6,7 milljónir. Vegna mikils aksturs  aukum við meðalverðfall á ári í 18% en ásett verð á svona mikið ekinn bíl í dag gæti verið um 3,8 milljónir.

Meðfylgjandi útreikningar gera ráð fyrir öllum viðhaldskostnaði. Stærsti útgjaldaliðurinn er eldsneyti. Þessi bíll er með uppgefna eyðslu 5,9 l/100 km í blönduðum akstri. Við færum það upp í 7 l/100 km. Inn í þessum útreikningi er einnig reiknað með fjármagnskostnaði vegna fjárbindingar í bílnum.

Eldsneytisverðið er sambærilegt við meðalverð á dísilolíulitra 2017 án afsláttar.

Hér fyrir neðan til glöggvunar kemur fram rekstrarkostnaður nýrrar bifreiða í janúar 2018.