Renault frestar rafgeymaverksmiðju til 2014

Stjórnendur Renault í Frakklandi hafa ákveðið að fresta gangsetningu nýrrar rafgeymaverksmiðju sinnar í Flins, skammt frá París, um tvö ár. Verksmiðjan á nú að hefja starfsemi árið 2014 í stað þess að byrja um mitt ár 2012 eins og áður var áætlað.

Jafnframt hefur Renault hætt við að sækjast eftir opinberum lánum og stuðningi við bæði verksmiðjuna og önnur verkefni sem tengjast rafbílaframleiðslu.

Renault og Nissan Motor í Japan (bæði fyrirtæki undir stjórn Carlos Ghosn) fjárfesta grimmt um þessar mundir í tækni tengdri rafbílum. Rafbíllinn Nissan Leaf er þegar kominn í almenna sölu í Bandaríkjunum aðallega en reyndar líka í Evrópu þar sem Leaf er bíll ársins 2011, og tvær nýjar gerðir rafbíla undir Renault merkinu eru væntanlegar á Evrópumarkað síðar á þessu ári. Talsmaður Renault sagði við fréttamann Reuters í morgun að þótt búið væri að fresta gangsetningu fyrrnefndrar rafgeymaverksmiðju þá myndi það ekkert tefja rafbílaframleiðsluáætlanir þeirra. 

Upphaf þessarar rafgeymaverksmiðju er það að árið 2009 var undirritað samkomulag milli Renault annarsvegar og hinsvegar frönsku kjarnorkunefndinnar (CEA) og franska nýsköpunarsjóðsins FSI. FSI ætlaði samkvæmt samkomulaginu að fjárfesta 125 milljón evrur í verkefninu og CEA að útvega 100 milljón evra ríkislán. Talsmaður Renault segir Reutersfréttastofunni að síðan þetta samkomulag var gert hafi fjárhagur Renault breyst til betri vegar. Engin þörf sé lengur fyrir hvoruga ríkisaðstoðina og hafi hún því verið afþökkuð í sátt og samlyndi við ríkisstofnanirnar tvær. Þeir rafgeymar sem kæmi til með að vanta þar til verksmiðjan í Flins byrjar starfsemi, verði keyptir frá öðrum framleiðendum, m.a. NEC, sem einmitt framleiðir rafgeymana í Nissan Leaf rafbílinn.