Renault gert að innkalla 15.000 dísilfólksbíla

Ségolène Royal samgöngumálaráðherra Frakklands.
Ségolène Royal samgöngumálaráðherra Frakklands.

Ségolène Royal samgöngumálaráðherra Frakklands hefur skipað Renault að innkalla 15 þúsund nýja dísilbíla og endurstilla vélar þeirra og pústhreinsibúnað áður en þeir verða afhentir nýjum eigendum. Athuganir hafa sýnt að hlutfall skaðlegra níturoxíða í útblæstri Renault dísilfólksbíla er yfir leyfðum mörkum, sérstaklega í kuldum og í innkölluininni á að færa það til betri vegar. RTL útvarpsstöðin og fleiri evrópskir fjölmiðlar greina frá þessu.

„Renault hefur skuldbundið sig til að innkalla þennan ákveðna fjölda bíla til að rannsaka þá og stilla þá rétt þannig að útblásturshreinsi- og síubúnaður þeirra vinni sitt verk óháð veðri og hitastigi. Mengun frá bílum verður að vera innan lögbundinna marka,“ sagði ráðherrann sagði við RTL og bætti við að aðgerðin ætti ekki að taka langan tíma.

Renault boðaði í tilkynningu í byrjun vikunnar að von væri á áætlun fljótlega um það hvernig að innkölluninni yrði staðið, hvað yrði gert og hvaða dísilbílar- og vélagerðir væri um að ræða sem ekki hefðu staðist lágmarkskröfur sérstakrar franskrar stjórnskipaðrar rannsóknanefndar um mengun dísilbíla. Sú nefnd var skipuð í kjölfar pústhneykslisins hjá Volkswagen. Nefndin hefur mengunarmælt dísilbíla undanfarið, bæði franska og innflutta og komist að því að hlutfall NOx-sambanda í pústinu frá Renaultbílum er yfir mörkum.

Thierry Koskas, sölustjóri Renault hefur fullyrt að aldrei hafi það verið meiningin hjá Renault að blekkja en viðurkennt að fundist hafi munur á niðurstöðum mengunarmælinga á bíla í tilraunastofum og í raunverulegri notkun bílanna. Volkswagenmálið er hins vegar annars eðlis: Þar var markvisst komið fyrir hugbúnaði í bílunum beinlínis til að dylja raunverulega losun NOx sambandanna.