Renault lúxusbíll á leiðinni?

Arnaud Montebourg iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Frakklands sagði á blaðamannafundi í byrjun vikunnar að Renault myndi tilkynna á næstunni um nýjar fyrirætlanir um að byggja lúxusbíla. „Þeir ætla að skapa, eftir því sem ég best veit, fjórar nýjar gerðir bíla, allt lúxusbíla af því að þeir hafa ákveðið að hella sér út í bardaga,“ sagði ráðherrann á fundinum.

Reuters fréttastofan bar þessi ummæli undir fjölmiðlafulltrúa Renault sem vildi ekkert segja um yfirlýsingu ráðherrans. En það eina sem Renault hefði þegar sagt um væntanlegar nýjungar og sem tengja mætti við lúxusbíla það stæði enn. Það er fréttatilkynning um nýja kynslóð fjölnotabílsins Espace sem væntanlegur er 2014. „En þær nýjungar sem næstar koma frá Renault eru fjórða kynslóð Clio og rafbíllinn Zoe,“ sagði fjölmiðlafulltrúinn við Reuters. Zoe kemur á Evrópumarkað í árslok.

Fjórða kynslóðin af Renault Clio verður væntanlega sýnd á bílasýningunni í París sem opnuð verður á næstunni. Bíllinn er hannaður er að öllu leyti af núverandi yfirhönnuði Renault; Hollendingnum Laurens van den Acker sem áður var hjá Mazda. Nýi Klíóinn er fimm dyra en lítur út eins og þriggja dyra en það kalla Frakkar „faux-coupé.“