Renault Lúxusbíll með Benz-tækni

Það samstarf sem þeir Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan og Dieter Zetsche forstjóri Daimler (Mercedes Benz) handsöluðu í júlí 2010 er nú að verða sýnilegt, ekki síst í nýjum kynslóðum smábílanna Smart og Renault Twingo en líka í nýjum Renault lúxusbíl sem kemur á markað innan fárra ára. Lúxusbíllinn er að mestu byggður tækni frá Mercedes og er sagður vera eiginlega Mercedes með Renault merki fremst á vélarhlífinni.

Á bílasýningunni í París 2010 sýndi Renault reyndar frumgerð nýs lúxusbíls sem kallaðist Latitude. Áhugi sýningargesta fyrir bílnum reyndist vera sáralítill og svæðið þar sem bíllinn stóð var meira og minna mannlaust alla sýningardagana. Aðrar og eldri tilraunir Renault með lúxusbíla hafa heldur ekki verið árangursríkar eins og bíllinn Renault Vel Satis. Sá bíll fór í fjöldaframleiðslu en seldist neyðarlega illa. Framleiðslu á honum var svo hætt árið 2009 eftir einungis átta ár.

En nú skal enn reynt og byggt á grunnplötu frá Mercedes og vélum og drifbúnaði einnig, enda byggir samvinnusamningur Mercedes og Renault á því að aðilar skiptast á tækni og búnaði. Þannig verður næsta kynslóð Smart byggð á sömu grunnplötu og  Renault Twingo og vélarnar í báða koma úr vélaverksmiðju Nissan í Tennessee í Bandaríkjunum.