Renault-Nissan yfirtekur Lada

 Renault-Nissan og AvtoVAZ, framleiðandi Lada bifreiða hafa sameinast. Samningar um þetta voru undirritaðir í Moskvu fyrr í dag. Líklegt þykir að yfirtaka Renault-Nissan á þessari stóru bílaverksmiðju í austurvegi muni styrkja mjög sókn Renault-Nissan inn á hinn ört vaxandi bílamarkað Rússlands. Samruninn muni mjög auðvelda samsteypunni að bjóða rússneskri millistétt nýtískulega bíla á viðráðanlegu verði.

Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan undirritaði samningana um samrunann í Moskvu í morgun og sagði við það tækifæri að með þeim yrði það samstarf sem verið hefur milli Renault-Nissan og Avto VAZ undanfarin fjögur ár mun nánara og ætti eftir að fæða fljótlega af sér nýja góða bíla fyrir rússneskan almenning í takti við batnandi kjör hans og betri lífsgæði. „Því er spáð að Rússland verði orðið mesta bílaland Evrópu um 2015. Rússland er mikill samkeppnismarkaður og flestir öflugustu bílaframleiðendur veraldar eru þegar með starfsemi hér. En við skulum hafa það á hreinu að við ætlum að gera fleira í Rússlandi en að framleiða og selja bíla,“ sagði Ghosn við fréttamenn. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að nýja Renault-Nissan/Lada samsteypan  verði komin með um 40 prósenta markaðshlutdeild árið 2016. Hlutdeild Lada hefur fram að þessu verið um 30 prósent í samstarfi við Renault. Það samstarf hefur verið fólgið í því að Renault-Nissan hefur lagt Lada til tækni- og framleiðsluþekkingu en fengið í staðinn heimild til að nýta verksmiðjur Lada til að setja saman Renault-Nissan bíla fyrir Rússlandsmarkað.

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í rússneskum bílamarkaði undanfarin ár og mánuði enda hefur millistéttin verið að þenjast út úr ca. einni milljón manns 1999 í 15-30 milljónir samkvæmt nýlegri rannsókn. Sala nýrra bíla í Rússlandi jókst um 40 prósent  á síðasta ári miðað við árið á undan og seldust þá 2,6 milljón bílar. Þótt heldur sé tekið að hægja á aukningunni sem verið hefur gríðarleg frá 2009 þá lítur út fyrir að á þessu ári seljist 2,9 milljónir bíla og Ghosn sagðist reikna með því að árið 2020 verði árleg bílasala í Rússlandi 4 miljónir bíla.

Ghosn sagði það sitt forgangsverkefni nú að styrkja Lada sem lifa mun áfram sem sjálfstætt vörumerki. Lada hefur verið stærsta bílamerkið á Rússlandsmarkaði um langt árabil og mun verða það áfram að sögn Ghosn. „Við eru hér komnir til að efla Lada og munum láta af hendi rakna það sem til þess þarf,“ sagði hann.

Tvær nýjar Lada gerðir; Largus (sem myndin er af) og Granta hafa slegið í gegn í heimalandinu og er nú sex mánaða biðlisti eftir þessum bílum. Það telur Ghosn vera til vitnis um það að rússneskir neytendur velji fremur innlendan bíl, standist hann á annað borð samanburð við erlendan í hönnun og gæðum.