Reyna að komast 500 km á lítranum

Sparakstursrallkeppnin Shell Eco-marathon verður haldin í Rotterdam um Hvítasunnuna, 16.-19 maí nk. Keppendur eru ungt hugvitsfólk, ekki síst verkfræðinemar hvaðanæva úr Evrópu, sem keppa á heimabyggðum farartækjum. Shell gengst einnig fyrir samskonar viðburðum í Ameríku og Asíu. Markmið keppninnar í ár er að finna það farartæki sem kemst lengst á lífrænu eldsneyti sem að orkugildi svarar til eins lítra af bensíni. Keppnin fer að hluta fram í almennri umferð tl að hægt sé að meta reyðsluna við raunverulega notkun farartækjanna.

http://www.fib.is/myndir/Shell-DTU-joachim.jpg
Jóakim prins afhjúpar DTU-bílinn.

Verkfræðinemar við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og verkfræðideild Álaborgarháskóla héldu blaðamannafund í gær og kynntu þátttöku sína í keppninni. Markmið DTU hópsins er að komast 500 kílómetra vegalengd á lífrænu etanóli sem að orkuinnihaldi samsvarar einum lítra af bensíni. Markmið Álaborgarhópsins er að komast þrjú þúsund kílómetra vegalengd á vetnismagni sem svarar að orkuinnihaldi til eins lítra af bensíni. Meginmarkmið þátttakendanna og keppninnar í heild er þó það fyrst og fremst að leita tæknilegra leiða til að draga sem mest úr bruna jarðefnaeldsneytis í samgöngum og bæta á þann hátt umhverfið.

Það var Prins Jóakim sem afhjúpaði bíla verkfræðinemanna. Bíll DTU er fjögurra hjóla með 50 rúmsm brunahreyfli. Burðargrind bílsins er úr léttmálmi og klædd koltrefjaplötum. Vélin er afturí og mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja bílinn þannig að loftmótstaða hans sé sem allra minnst. DTU liðið hefur tekið þátt í Shell Eco-maraþoninu sl. þrjú ár á sama bílnum en bíllin sem liðið keppir á nú, er hins vegar nýr og lítilsháttar þyngri en sá gamli var. Loftmótstöðustuðull hans er hins vegar 30% lægri en gamla bílsins. Bíllinn gengur fyrir lífrænu etanóli, framleiddu af Inbicon í Danmörku úr sorpi.

Bíll Álaborgarliðsins er sá sami og liðið keppti á í fyrra að því undanteknu að skipt hefur verið út drifbúnaði hans. Kominn er nýr rafmótor í hann og straumstýring.  Hann er þriggja hjóla og með litlum vetnisgeymi sem varðveitir vetnið undir 200 kílóa þrýstingi á fersentimetra. Vetnið er leitt í efnarafal sem breytir því í rafstraum sem snýr örsmáum 200 Watta, 0,14 hestafla rafmótor sem knýr bílinn.