Reynsluakstursvegur fyrir rafbíla um endilanga Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/Mitsub.Miev.jpg
Mitsubishi Miew rafbíll.

Þingflokkur sósíaldemókrata á sænska þinginu vill að gera þjóðveg E45, svonefndan Innlandsveg, að tilraunavegi fyrir rafbíla. Leggja á samkvæmt tillögu flokksins 50 milljónir SKR í að reisa hleðslu- og geymaskiptistöðvar með 50 km millibili meðfram veginum. E45 liggur milli Gautaborgar og Arjeplog í Lapplandi. Vegalengdin er rúmir 1260 kílómetrar.

Sósíaldemókratarnir vilja styðja við þróun umhverfismildra bíla í Svíþjóð. Þeir telja að minnst ein hleðslustöð skuli vera meðfram veginum í hverju þeirra sveitarfélaga sem vegurinn liggur um, og að ekki verði lengra en 50 km milli stöðvanna. Sjálfsagt er ástæðan fyrir því að bent er sérstaklega á E45 veginn sú, að höfuðstöðvar Volvo eru í Gautaborg og í Arjeplog eru miklar tilraunaakstursbrautir þar sem mjög margir bílaframleiðendur, hjólbarða- og íhlutaframleiðendur prófa bíla og búnað. Sú starfsemi er mjög umfangsmikil í Arjeplog. http://www.fib.is/myndir/Rafbilavegur.jpg

- Við viljum samþætta og styrkja mikilvægan sænskan iðnað og tækniþekkingu innan bílaiðnaðarins og raftækninnar. Þannig kemur Sviþjóð sterkt inn í þau fyrirsjáanlegu umskipti sem eru að verða yfir í rafknúna bíla,- segir Tomas Eneroth, talsmaður Sósíaldemókrata í atvinnumálum við Auto Motor & Sport.