Ríkið heldur fast við ofurskattastefnu sína gagnvart bifreiðaeigendum

The image “http://www.fib.is/myndir/AygoDiesel.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.http://www.fib.is/myndir/Ford-F250.jpg
Tveir heimilisbílar. Lítill dísilknúinn fólksbíll, Toyota Aygo tv. sem eyðir rúmum fjórum lítrum á hundraðið og stór bensínknúinn Ford F250 pallbíll sem eyðir ekki undir 30 lítrum á hundraðið. Ríkið leggur 30% vörugjald á litla bílinn við innflutning en 13% á þann stóra. Það er skattapólitík sem ekki beint er til þess fallin að beina almenningi að neyslugrönnum bílum.

Í Kastljósþætti nýlega kom fram hjá Pétri Blöndal alþingismanni að hann væri mótfallinn því að lækkaðar yrðu álögur ríkisins á bílaeldsneyti af tvennum ástæðum. Annarsvegar væri jarðolía takmörkuð auðlind og hátt verð leiddi til minni aksturs og þar með minni eftirspurnar og lengri endingar olíulinda heimsins. Þá væri tekjum ríkisins af eldsneytissköttum varið til vegargerðar sem væri dýr í strjálbýlu landi.

Þær gríðarlegu verðhækkanir sem orðið hafa að undanförnu á bílaeldsneyti skila ríkissjóði hundruðum milljóna króna auknum virðisaukaskattatekjum. Það er staðföst skoðun FÍB að það sé ekki viðunandi að ríkið geri sér þannig ofurhátt heimsmarkaðsverð á þessari nauðsynjavöru að féþúfu. Krafa FÍB um lækkaðar álögur á eldsneyti fær nú enn sterkari og vaxandi hljómgrunn meðal almennings og stjórnmálamanna en áður. Engu að síður sýnir ríkisstjórnin ennþá engin merki þess að hún vilji koma til móts við almenning - umbjóðendur sína - í þessu efni.

Í fréttum Ríkisútvarpsins um helgina tók talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason að nokkru undir með ofannefndri skoðun Péturs Blöndal þegar hann kvaðst vilja að ríkið nýtti mörg hundruð milljóna króna aukatekjur sínar af hækkuðu og hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti til þess að efla valkosti við einkabílinn, m.a. með því að leggja hjólreiðavegi o.fl. Orð beggja gefa tilefni til að ætla að þeir séu ekki vel kunnugir skattlagningu á bifreiðaeigendur og hvernig hún er samsett.

Nauðsynlegt er að minna á að enginn nauðsynjahlutur í tilveru Íslendinga er jafn mikið skattlagður og einkabíllinn. Um 67 krónur af verði hvers bensínlítra eru nú skattar. Heildarskattar ríkissjóðs af bílum og umferð voru á síðasta ári yfir 47.000 m.kr. (Fjörutíu og sjö þúsund milljónir). Það ætti nú að vera hægt að leggja mikla og góða vegi um landið fyrir allt það fé en að þessir fjármunir fari í vegi og vegagerð eins og skilja mátti af orðum alþingismannsins er fjarri öllu lagi. Sannleikurinn er sá að einungis um fjórðungur rann til vegagerðar 2005. En það er fleira en bílvegir sem lagðir eru fyrir skattfé sem tekið er af eigendum bifreiða, líka hjólreiðabrautir, reiðvegir og gangvegir.

Það er ekki bara eldsneytið heldur nánast allt viðkomandi bílum skattlagt. Bílarnir sjálfir eru skattlagðir í bak og fyrir, dekkin undir þá eru skattlögð, varahlutirnir í þá eru skattlagðir og öryggisbúnaður, m.a. barnaöryggisbúnaður er skattlagður, árleg öryggisskoðun er skattlögð auk alls kyns sérskatta eins og bifreiðagjalda sem lögð eru á bíla eftir þyngd og umferðaröryggisgjalds o.fl. o.fl.

FÍB er fyllilega samþykkt því að bifreiðaeigendur greiði þann samfélagslega kostnað sem verður til við notkun bifreiða en ekki að þeir greiði margfalt meir en þeim ber. FÍB er líka eindregið þeirrar skoðunar að almenningur hafi aðra valkosti en einkabílinn við að komast leiðar sinnar. En eins og nú háttar greiða íslenskir bifreiðaeigendur hæsta verð í heiminum öllum fyrir eldsneytið og þeir greiða skatta af bifreiðum og bifreiðanotkun sem að öllu samanlögðu eru með því hæsta í veröldinni en hafa mjög takmarkaða valkosti við einkabílinn. Almannasamgöngur eru svo takmarkaðar að því fer fjarri að þær geti uppfyllt þarfir flestra og komið í stað einkabílsins. Hann er því ómissandi en fokdýr þáttur í tilveru lang flests vinnandi fólks.
http://www.fib.is/myndir/FordF350.jpg
Ofurpallbíll eins og þessi fékkst á hagstæðu verði í Bandaríkjunum til skamms tíma, meðan gengi krónunnar var sterkt gagnvart dollar. Allmargir Íslendingar hafa flutt slíka bíla inn og nota þá sem heimilisbíla. Af þessum „heimilisbíl“ tekur ríkið ekki krónu í vörugjöld.