Ríkið hlustar á FÍB með öðru eyranu - kílómetragjald á rafbíla

Þrátt fyrir loðið orðalag í kynningu fjármálaráðherra á breyttri gjaldtöku af notkun ökutækja, þá er ljóst að áformað er að fara að hluta þá leið sem FÍB hefur lagt til um kílómetragjald.

Þó er ekki lagt til að farið verði alla leið eins og FÍB leggur til, sem er að kílómetragjald verði lagt á alla notkun ökutækja og skattar á eldsneyti felldir niður á móti. Fjármálaráðherra sagði að byrjað yrði á gjaldtöku af akstri rafknúinna ökutækja. Aftur á móti yrði haldið áfram um sinn að skattleggja eldsneyti á ökutæki með hefðbundnum hætti. Því má segja að ríkisvaldið hafi hlustað á FÍB með öðru eyranu.

Heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum og umferð vel yfir 90 milljarða króna á næsta ári.

Kílómetragjaldið á rafknúin ökutæki ásamt öðrum gjaldahækkunum á að skila ríkissjóði 7,5 milljörðum í viðbótartekjur af ökutækjum og umferð árið 2024. Samtals eiga þessar beinu álögur að skila 63,3 milljörðum króna í ríkissjóð. Að auki hefur ríkissjóður miklar tekjur af virðisaukaskatti á vörur og þjónustu í þessum geira. Ekki er óvarlegt að ætla að heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum og umferð vel yfir 90 milljarða króna á næsta ári.

Þrátt fyrir þessar miklu tekjur áformar ríkið aðeins að verja 53 milljörðum króna til samgöngumála 2024. Það er óveruleg hækkun frá útgjöldum þessa árs og í ljósi verðbólgunnar er hér um töluverðan samdrátt að ræða. Hafa þarf í huga að inni í þessum útgjaldaliðum er niðurgreiðsla á rekstri ferja og flugi innanlands.

Miðað við fjárlagafrumvarpið má gera ráð fyrir að bensínlítri hækki um 4.20 krónur á lítra og dísillítri um 3,70 krónur um komandi áramót.