Ríkið seilist dýpra í vasa þegnanna

Það er ekki bara á Íslandi sem ríkisvaldið freistar þess að þenja sig út og um leið seilast dýpra í vasa almennings. Hér á landi á að skerða fornan almannarétt til ferða um landið með því að skylda fólk til að kaupa náttúrupassa til að mega njóta íslenskrar náttúru. Manna á sérstaka "lögreglu" eða eftirlitssveitir til að rukka fólk um þennan passa að viðlögðum sektum ef passann vantar.

Í Danmörku hyggst framkvæmdavaldið gera svipað nema að þar á að koma á gjaldskyldu næsta vor á 19 sérvöldum bílastæðum í nágrenni við fjölsótta áhugaverða, náttúrulega staði og svæði eins og strendur, skóga og stöðuvötn. Eins og með náttúrupassa innanríkisráðherra hér, mæta þessar fyrirætlanir dönsku náttúruverndarstofnunarinnar harðri mótspyrnu. Lögmæti þeirra er dregið í efa og FDM, systurfélag FÍB hefur mótmælt þeim harðlega. Dennis Lange lögmaður félagsins segir það algerlega ólöglegt að nýta tekjur af þessum bílastæðum til annarskonar reksturs, eins og gerðar og viðhalds göngustíga, salerna, borða og bekkja o.s.frv.

Danska náttúruverndarstofnunin ætlar að byrja þessa bílastæðainnheimtu næsta vor og hefur fengið einkafyrirtæki til að annast hana á bílastæðunum 19. FDM undrast það mjög, þar sem það sé kolólöglegt. Í dönsku umferðarlögunum  standi nefnilega skýrum stöfum  að það sé óleyfilegt að fela einkareknu bílastæðafyrirtæki rekstur og innheimtu stöðugjalda á opinberum bílastæðum og svæðum. Slíkt sé eingöngu í verkahring lögreglu og/eða sérstakra starfsmanna sveitarfélaga. Fyrirætlun nátturustofnunarinnar sé jafn ólögleg eins og að fela einhverjum og einhverjum það að hraðamæla og sekta fyrir hraðakstur á vegum. Það veki því furðu að opinber stofnun láti sér detta slíkt í hug. FDM hefur í framhaldinu óskað eftir því á hvaða lagagrunni náttúruverndarstofnunin byggi fyrirætlanir sínar.