Risa-bankaábyrgð til stuðnings Chrysler

http://www.fib.is/myndir/Iacocca.jpg
Lee Iacocca fyrrum forstjóri Ford og síðar Chrysler við Ford Mustanginn sem hann átti stóran þátt í að skapa á ofanverðum sjöunda áratuginum.

Cerberus, hið nýja eignarhaldsfélag Chryslers er byrjað að taka til í rekstri Chryslers og hefur fengið sjö stóra bandaríska banka til að ábyrgjast sameiginlega 62 milljarða dollara skuldbindingar bæði gamlar og nýjar. Inni í þessari risaábyrgð er heimild til 12 milljarða dollara láns til að endurskipuleggja reksturinn.

Gamli Chrysler-forstjórinn Lee Iacocca hefur fylgst með hremmingum síns gamla fyrirtækis og aðskilnaði þess frá Mercedes Benz og vandar Benz-mönnum ekki kveðjurnar í vikulegum pistli sínum í blaðinu Business Week. Fyrirsögn nýjasta pistilsins er -Daimler Screwed Chrysler, sem í kurteislegri þýðingu gæti hljómað -Daimler sveik Chrysler. Hann segir þar að fyrirtækið hafi verið í afleitu ásigkomulagi þegar Cerberus keypti það á dögunum. En Iacocca er bjartsýnn á að Chrysler komist á réttan kjöl aftur og spjari sig.

Hann segir að þegar Chrysler og Mercedes sameinuðust árið 1998 hafi Chrysler verið á grænni grein og hafi skilað methagnaði upp á fimm milljarða dollara árið 1999 með markaðshlutdeild upp á 16% í Bandaríkjunum. Það sem síðan gerðist var það að mestu sölubílarnir voru í flokkum sem síðan hafa hrunið í sölu, það er að segja fjölnotabílar, stórir eyðslufrekir pallbílar og jeppar. Við þessu hafi ekki verið brugðist með hönnun og þróun nýrra gerða.

Getgátur eru uppi um að fjárfestingafélagið Cerberus ætli að búta Chrysler niður og selja frá þá rekstrarhluta sem skila arði. Iacocca telur það ekki líklegt heldur fái stjórnendurnir nú loks næði til að endurskipuleggja fyrirtækið og þróa nýjar gerðir án afskipta Þjóðverjanna hjá Benz.

Eins og hjá GM og Ford er stóran hluta vandræða í rekstri að rekja til gríðarhárra lífeyris- og sjúkratryggingaskuldbindinga gagnvart starfsfólki. Þær eru svo miklar að þær eru taldar samsvara 1.500 dollurum á hvern einasta seldan amerískan bíl. Iacocca hefur ítrekað bent á þá leið út úr þeim vanda, að Bandaríkin taki upp opinberar sjúkratryggingar eins og tíðkast í Evrópulöndunum og ríkið hreinlega taki þessar skuldbindingar einstakra fyrirtækja yfir.