Risainnköllun General Motors

General Motors Co stendur um þessar mundir í gríðarlega umfangsmikilli innköllun á bílum framleiddum í Bandaríkjunum, vegna galla í kveikilásum. Innköllunin sem hófst í febrúar sl. náði upphaflega til heldur færri bíla. En nú hefur verið bætt við 971 þúsund bílum og nær hún nú til 2,6 milljón bíla af ýmsum GM-gerðum, þeirra á meðal eru algengir bílar eins og  Chevrolet Cobalt, Chevrolet HHR, Saturn Ion, Saturn Sky, Pontiac G5 og Pontiac Solstice af árgerðunum 2003-2011. Viðbótin er vegna gruns um að gallaðir kveikilásar hafi jafnvel endurnýjaðir með öðrum gölluðum lásum.

Minnst 12 dauðaslys eru rakin til gallans sem lýsir sér þannig að högg eða titringur getur orðið til þess að kveikilásinn hrekkur til baka hálfa leið þannig að það drepst á vélinni á fullri ferð. Önnur raftæki eins og útvarp og ljós halda samt áfram að virka. En við það að drepst á vélinni verður aflstýri, aflhemlar og loftpúðar bílsins ýmist nærri því eða algerlega óvirkir.

Mörgum hefur þótt það undarlegt hversu seint General Motors hefur brugðist við í þessu tiltekna gallamáli því vitað er að innan GM vissu menn af því strax árið 2001 þegar eftirlitsaðilum var enn að mestu ókunnugt um það. Málið er þannig arfleifð fyrri yfirstjórnar til núverandi forstjóra, Mary Barra, sem þarf að takast á við það og hugsanlegar afleiðingar þess. Hún sagði við fréttamenn sl. föstudag að allt yrði gert til að leysa það. “Þetta er öryggismál og á þeim tökum við af fullri alvöru, sagði MaryBarra. Hún hefur verið boðuð til fundar við eftirlitsnefnd þingsins í næstu viku. Þar verður hún væntanlega spurð hvassra spurninga um hversvegna það hefur tekið GM meir en áratug að bregðast við.

GM hefur opnað sérstaka heimasíðu. Þar eru gefnar upplýsingar um framgang innköllunarinnar og fleira sem henni tengist.