Rúllugardínukóngur býr í húsbíl

Sænski gardínukóngurinn Bo Persson á og rekur stærstu rúllugardínuverksmiðju Evrópu, ef ekki heimsins alls; Markisol. Áætluð velta fyrirtækisins á þessu ári er tæplega 6,5 milljarðar ísl. kr. Hreinn hagnaður á síðasta ári var rúmlega 220 milljónir ísl. kr. Maðurinn hefur samkvæmt þessu bærilegar tekjur og efni á að búa sæmilega. En hann býr í húsbíl.

Þetta kemur fram í frétt í Dagens Industri sem ræðir við Bo Persson. Hann segist búa í húsbílnum að mestu og að bíllinn hafi um þriggja ára skeið verið hans „fasta“ heimilisfang. Hann hafi þó neyðst til að skrá sig til heimilis innan veggja fasteignar vegna þess að starfsfólk þjóðskrár Svíþjóðar hafi verið orðið gersamlega viti sínnu fjær yfir þessu. „Þau hringdu aftur og aftur í mig til að reyna að skrá mig á fast heimilisfang en árangurslaust. En besta sparnarráð sem ég get gefið þér er að þú fáir þér húsbíl. Ég fékk t.d. ekki einn einasta reikning í þrjú ár,“ sagði Persson við blaðamann Dagens Industri.

Persson hefur framleitt rúllugardínur frá því fyrir 1970. Reksturinn hefur alla tíð gengið ágætlega en þegar hann kom sér upp sjálfvirkum vélbúnaði til framleiðslunnar árið 1983 gat framleiðslan stóraukist. Í kjölfarið gerði hann samstarfssamning við IKEA og nú er Markisol stærsti rúllugardínuframleiðandi í Evrópu og líklega sá stærsti í heiminum. „Ég veit í það minnsta ekki um neinn sem er stærri í þessu,“ segir Persson við DI.