Rúm 35% Reykvíkinga nota rafhlaupahjól

Rúm 35% Reykvíkinga, 18 ára og eldri, nota rafhlaupahjólahjól eitthvað en sambærilegt hlutfall fyrir tveimur árum var 19%. Ríflega einn af hverjum 10 notar rafhlaupahjól vikulega eða oftar, tæplega 14% nota þau einu til þrisvar sinnum í mánuði og um 11% nota þau sjaldnar.

Notkun á rafhlaupahjólum er mest meðal fólks á aldrinum 18-34 ára en svo dregur úr notkun eftir því sem aldur hækkar. Að sama skapi er notkunin mest meðal íbúa í Miðborg/Vesturbæ og Hliðum og Laugardal  en notendum hefur fjölgað talsvert í flestum hverfum.  Einnig nota karlar rafhlaupahjól í meira mæli en konur.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunnar Gallup á notkun rafhlaupahjóla fyrir Reykjavíkurborg en niðurstöðurnar voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær.

Rafhlaupahjólaeign meiri austan Elliðaáa

Algengast er að rafhlaupahjól séu notuð í ferðir til og frá skemmtistöðum, börum og veitingahúsum, eða rúm 47%. Þær ferðir eru nær eingöngu farnar á leiguhjólum, 96% á leiguhjólum, 4% á eigin rafhlaupahjóli. Næst algengast er að rafhlaupahjól séu notuð til og frá vinnu eða skóla, naumlega 42%. Hlutfallslega fleiri nota eigin hjól í þær ferðir eða um 26% eru á eigin rafhlaupahjóli og 74% á leiguhjóli.

Einnig var kannað hvort að barnið/börnin á heimilinu noti rafhlaupahjól. Niðurstöðurnar benda til þess að meira en helmingur 13-15 ára unglinga noti þennan fararmáta. Athuga þarf þó að það eru ekki börnin sjálf sem svara þessari könnun heldur forráðafólk.

Enn fremur sýna niðurstöður að rafhlaupahjólaeign er algengari í hverfunum austan Elliðaáa heldur en vestan þeirra eða 21-23% samanborið við 14-15%.

Minnihluti notenda hefur lent í óhappi

Notkun rafhlaupahjóla hefur vaxið  hratt undanfarin ár og hefur í raun margfaldast. Borgarbúar eru enn að læra hvernig best sé að notfæra sér þennan nýja ferðamáta en notkun smáfarartækja eins og rafhlaupahjóla er einhver mesta samgöngubylting sem hefur orðið á Íslandi í seinni tíð.

Minnihluti þeirra sem notar rafhlaupahjól hefur lent í óhappi á hjólinu eða 28% en við síðustu könnun var hlutfallið 12,5%. Í hvorugt skiptið var spurt hvenær óhappið varð. Því er ekki óeðlilegt að það fjölgi í hópnum sem hefur orðið fyrir óhappi þar sem bæði notendum hefur fjölgað og tímabilið er lengra. Aðspurð um síðasta skiptið sem viðkomandi lenti í óhappi segjast 10% þeirra hafa verið undir áhrifum áfengis. Til samanburðar voru um 8% slasaðra eða látinna í umferðarslysum árið 2021  undir áhrifum áfengis eða fíkniefna samkvæmt ársskýrslu Samgöngustofu.

Verið að greina skráð umferðaróhöpp

Reykjavíkurborg vinnur að greiningu á skráðum umferðaróhöppum þar sem rafhlauphjól koma við sögu til þess að læra af þeim óhöppum sem upplýsingar liggja fyrir um. Tilgangurinn er meðal annars að átta sig á hversu stórt vandamálið er og hvernig best er að bregðast við til að koma í veg fyrir eða draga verulega úr alvarleika þeirra slysa sem verða. Áætlað er að niðurstöður þeirrar greiningar liggi fyrir í upphafi næsta árs.