Rússajeppasmiðir í VW-framleiðslu

Fulltrúar frá Volkswagen  eiga nú í alvarlegum viðræðum við rússneska bílaframleiðslufyrirtækið GAZ um samsetningu á 150 þúsund VW bílum bílum árlega í verksmiðjum GAZ í Nizhny Novgorod í Rússlandi. Frá þessu var greint í Financial Times.

 Verði þetta að veruleika þykir það líklegt til að styrkja stöðu Volkswagen á rússneskum bílamarkaði verulega og stækka markaðshlutdeild VW umtalsvert. Þá mun það efalaust efla gengi GAZ verulega en það hefur verið á fallanda fæti lengi. Bílar frá GAZ voru mjög algengir hér á landi lengi og margir muna ennþá eftir Volga bílum og rússajeppunum. Rússneski bílamarkaðurinn er nú sem óðast að taka við sér eftir fjármálakreppuna þannig að náist samningar þykir sýnt að báðir aðilar muni njóta góðs af.

FT segir að um sé að ræða bæði fólksbíla og sendibíla af Volkswagen og Skoda gerðum. Reuters fréttastofan segir að hvorki talsmenn VW né GAZ hafi viljað staðfesta að þessar viðræður væru í gangi. Talsmenn VW hefðu þó sagt að VW væri að huga að frekari landvinningum í Rússlandi.