Rússajeppinn í Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Russajeppi1.jpg
Man einhver eftir Rússajeppanum sem í eina tíð var einn algengasti jeppinn á Íslandi? Gamli Rússajeppinn hét GAZ 69, og síðan kom arftaki hans sem hét UAZ og var aðeins nýtískulegri í útliti en myndin hér að ofan er einmitt af honum. UAZ er enn framleiddur í fyrrum sovéskri bílaverksmiðju í Uljanowsk, um þúsund kílómetra austan við Moskvu, undir rótum Uralfjalla.

Fyrirtæki í bænum Bad Neuheim í Hessen í Þýskalandi sem heitir Baijah Automotive hefur nú hafið innflutning á UAZ Rússajeppanum til Þýskalands og fleiri Evrópulanda. Fyrirtæki kaupir bílana án vélar og gírkassa og setur í þá 2,7 l, 130 ha. Toyota bensínvélar og fimm gíra handskiptan gírkassa og gengur frá þeim þannig að þeir uppfylla Evrópukröfur og staðla um bíla.

Framkvæmdastjórinn segir við Der Spiegel að UAZ verksmiðjurnar, sem áður framleiddu auk Rússajeppans, vörubíla og hergögn hverskonar, starfi aðallega við það nú að setja saman Fiat, Hyundai og Ssangyong bíla. En ennþá sé þó Rússajeppaframleiðslan talsverð eða um 200 þúsund jeppar á ári.

Baijah Automotive hefur þegar selt Rússajeppa til Ítalíu, Hollands, Frakklands, Grikklands, Tyrklands og víðar, en er nú að hefja söluátak í Þýskalandi og er markhópurinn einkum útivistarfólk, veiðimenn og torfærukappar. Verðið er 15.650 evrur eða um 1,4 m. kr.
http://www.fib.is/myndir/Russajepi2.jpg