Rússneskur bílaiðnaður á uppleið

Bílaiðnaðurinn í Rússlandi virðist vera að ná sér á strik eftir mikla og djúpa lægð undanfarinna heimskreppuára. Salan hefur gengið ágætlega að undanförnu og alls seldust á síðasta ári 1,7 milljón rússneskbyggðra bíla sem er svipuð tala og var þegar best lét og tvöfalt meira en árið 2009.

Níu af tíu vinsælustu bílategundunum nú eru framleiddar innanlands. Söluhæsta tegundin er Avto VAZ eða Lada. 40 prósenta söluaukning varð á Lada bílum fyrstu 11 mánuði síðasta árs miðað við árið á undan. Þetta er mikil breyting til batnaðar en Avto VAZ var nánast gjaldþrota í árslok 2009. Svipaða sögu er að segja af öðrum sögufrægum rússneskum bifreiðaverksmiðjum eins og GAZ

http://www.fib.is/myndir/Putin-Lada.jpg
Vladimir Putin við Lödujeppann sinn

sem fyrrum framleiddu Volgur, Rússajeppa og Pobeda bíla. Innlendu bílaframleiðendurnir sem allir eru frá Sovéttímanum, hafa fengið ríkisstyrki til að endurskipuleggja sig og leita samstarfs við erlenda bílaframleiðendur og framleiða nú þeirra bíla í stórum stíl. Þannig hefur GAZ gert stóra framleiðslusamninga við bæði GM og Volkswagen. AvtoVAZ hefur samið við Renault / Nissan, og KAMAZ við Daimler (Benz) og Fiat. Þá hafa nýjar verksmiðjur verið reistar í Tatarstan, St. Pétursborg, Rostov og Kaluga. Þaðan renna nú af færiböndunum VW bílar, Mitsubishi, Peugeot, Renault og Volvo.

Avto VAZ er ein stærsta bílaverksmiðja veraldar. Hún var reist undir lok sjöunda áratugarins í samvinnu Sovétstjórnarinnar og Fiat. Í raun var byggð heil verksmiðjuborg á bökkum Volgu, sem fékk ítalsk-rússneska nafnið Togliattograd. Fyrsti bíllinn sem þaðan kom var upphaflega Fiat 124 og kallaðist Lada. Þekktasti bíllinn varð svo jepplingurinn Lada Niva sem hér kallaðist Lada Sport en hann er enn framleiddur og kannski vinsælli í dag en nokkru sinni áður. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir 600 þúsund bíla ársframleiðslu. Í dag starfa 160 þúsund manns hjá Avto VAZ og 750 þúsund bílar renna af færiböndunum árlega.

Hraður vöxtur er nú í rússneskum bílaiðnaði og spár gera ráð fyrir því að árið 2020 verði ársframleiðslan í landinu öllu um þrjár milljónir bíla.