Saab 1946-2011

Þann 19. desember 2011 lagði Victor Muller aðaleigandi Saab inn beiðni um gjaldþrot fyrirtækisins hjá héraðsdómi Vänersborgarléns í Svíþjóð. Þar með lauk 60 ára sögu bílaframleiðslu fyrirtækis sem upphaflega var stofnað til þess að byggja orrustuflugvélar fyrir sænska flugherinn og aðra þá heri sem vantaði öflugar flugvélar. Saab bílar bárust til Íslands á sjöunda áratuginum og náðu strax miklum vinsældum enda voru þeir traustir og öruggir og sérlega góðir þóttu þeir á malarvegunum sem hér voru allsráðandi þá.

Við birtum hér samantekt um feril Saab bílaframleiðslunnar í mjög grófum dráttum. Upphafið var árið 1937 þegar stofnað var iðnfyrirtækið Svenska Aeroplan Aktiebolaget sem hóf að byggja her- og orrustuflugvélar í borginni Trollhättan. Nafnið Saab er þannig í raun einfaldlega skammstöfun. Árið 1937 voru viðsjár miklar í Evrópu, Adolf Hitler og Nasistaflokkur hans búinn að vera við völd í Þýskalandi í fjögur ár og augljóst að það stefndi í stórstyrjöld. Svíþjóð hélt fast við hlutleysisstefnu sína en vígbjóst mjög til að geta varið hana.

Svo hófst síðari heimsstyrjöldin 1939 en þegar það var orðið flestum ljóst öðrum en Adolf Hitler hver úrslit styrjaldarinnar yrðu, hófu menn hjá Svenska Aeroplan Aktiebolaget að huga að bílasmíði. Tvö síðustu styrjaldarárin unnu svo tæknimenn og hönnuðir að því að hanna fólksbíl og fyrsta frumgerðin leit svo dagsins ljós árið 1946. Þessi frumgerð kallast í daglegu tali Frum-Saabinn en vinnuheiti hans var Saab 92.001. Um svipað leyti er stofnuð sérstök bílaframleiðsludeild Svenska Aeroplan Aktiebolaget í Limhamn og fjöldaframleiðsla hefst árið 1949. Hér má sjá myndir af Saab bílum frá fyrstu dögum til þeirra síðustu.

1949

Færibandaframleiðsla hefst á Saab 92. Vélin í honum var þriggja strokka tvígengisvél, 764 rúmsm og 25 hestafla. Vélin var sú sama og vél sem hafði á millistríðsárunum verið í þýskum DKW bílum. Sá sem hafði hannað hana í upphafi var danski verkfræðingurinn Jørgen Skafte Rasmussen. Þessi sama vél var einnig í Wartburg bílum sem framleiddir voru í A. Þýskalandi eftir stríð, en það er önnur saga.

1950

Sala hefst á Saab 92 bílunum.

1958

Öryggisbelti verða staðalbúnaður í Saab bílum af gerðinni Saab 93 GranTurismo (GT) 750.

1959

Fyrsti langbakurinn – gerð 95 (station-bíllinn) kemur á markað. Síðan áttu eftir að líða 46 ár þar til næsti langbakurinn frá Saab kom fram.

1962

Erik Carlsson vinnur sinn fyrsta sigur í Monte Carlo-rallinu.

1966 

Fyrsta fjórgengisvélin kemur fram í Saab og tvígengisvélin er aflögð. Nýja vélin var V4 vél frá Ford og bæði aflmeiri og sparneytnari en gamla tvígengisvélin.

1969 

Saab og Scania Vabis vörubílaframleiðslan sameinast undir nafninu Saab-Scania.

1971

 Saab kemur fram með tvennar nýjungar; annarsvegar upphitað ökumannssæti og hinsvegar stuðara sem réttir sig upp sjálfur eftir minniháttar ákomur eða árekstra.

1976

Milljónasti Saabinn rennur af færibandinu í Trollhättan í janúar.

1983 

Hundraðþúsundasti Saab túrbó-bíllinn. Saab verður þar með stærsti framleiðandi bíla með túrbínu-bensínvélar.  

1984 

Árleg bílaframleiðsla Saab næsr í fyrsta sinn 100 þúsund bíla markinu.

1985

Fyrstu bensínvélarnar með beinni strokkinnsprautun koma fram (Saab Direct Ignition eða Saab DI). Kerfið var samhæft tölvustýrt innsprautunar- og kveikjukerfi með háspennugjafa fyrir hvern strokk (hvert kerti).

1986 

Saab 9000 árgerð 1987 kemur fram og er fyrsti framhjóladrifni bíllinn sem fáanlegur er með læsivörðum ABS hemlum. Þetta sama ár, 1986,  slá Saab bílar nokkur heimsmet á kappakstursbrautinni Alabama International Motor Speedway i Talladega í Bandaríkjunum USA. Þrír Saab 9000 Turbo voru keyrðir á fullu nánast stanslaust á brautinni í 20 sólarhringa uns 100 þúsund kílómetrar voru að baki lagðir. Í þessum akstri féll 21 alþjóðlegt hraðamet og hraðskreiðasta bílnum af þessum þremur ók 100 þúsund kílómetrana á meðalhraðanum 213,299 km á klst.

1989 

General Motors kaupir helmingshlut í fólksbílaframleiðslu Saab Scania og stofnað er nýtt félag; Saab Automobile AB, um reksturinn.

1990 

Höfuðstöðvar Saab Automobile AB flytjast til f Trollhättan.

1991 

Fjárfestingafélagið Investor kaupir öll hlutabréf í Saab-Scania AB og eignast þar með helming í Saab Automobile AB á móti GM.

1996 

Saab kemur fram með virka vörn gegn hálshnykk í árekstrum sem kallast SAHR (Saab Active Head Restraint). Búnaðurinn verður staðalbúnaður árið eftir.

2000 

General Motors kaupir helmingshlut Investors í Saab Automobile AB og verður með kaupunum eini eigandi Saab. Á bílasýningunni í Genf þetta sama ár kynnir Saab nýja bensínvél með breytilegu rúmtaki.

2004 

Sölumet í Bandaríkjunum þegar 48.000 bílar seldust.
Þetta sama ár fær blæjubíllinn Saab 9-3 Cabriolet fullt hús stiga og fimm stjörnur í árekstursprófi EuroNCAP og verður þar með fyrsti fjögurra sæta blæjubíllinn til að hreppa það hnoss. Þar með eru allar gerðir Saab bíla á Evrópumarkaði fimm stjörnu bílar.

2005 

Jan Åke Jonsson verður forstjóri Saab Automobile AB.

2009

General Motors tilkynnir þann 18. desember að enginn kaupandi hafi fundist að Saab. Því verði starfseminni hætt og fyrirtækið lagt niður.

2010

GM tilkynnir þann 26. janúar að kaupsamningar milli GM og Spyker Cars um sölu á Saab.

2011

Forstjórinn Jan Åke Jonsson tilkynnir afsögn sína og stjórnarformaðurinn Victor Muller tekur við daglegri stjórn. Þann 6. apríl stöðvast bílaframleiðslan  vegna greiðsluerfiðleika og komst aldrei í gang aftur eftir það. Victor Muller á í viðræðum við kínversk fyrirtæki, einkum þó Youngman og Pang Da um að þau leggi Saab til fé og gerist meðeigendur. Allt strandar á GM sem aftekur með öllu að fjölmörg framleiðslueinkaleyfi þeirra falli í hendur Kínverjum.

19. des. 2011

Victor Muller gefst upp og óskar gjaldþrotaskipta á Saab.