Saab byrjar samvinnu við Kínverja

Framleiðsla í verksmiðju Saab í Svíþjóð hefur nú legið niðri í tæpan mánuð vegna peningaskorts og hafa menn róið lífróður til að reyna að bjarga þessu sögulega bílmerki frá glötun. Svo gæti virst sem það sé loks að takast því að sænsk stjórnvöld og Evrópski fjárfestingabankinn hafa samþykkt aðkomu rússneska peningamannsins Antonovs að Saab.

http://www.fib.is/myndir/Hawtai-bill.jpg
Hawtai fólksbíll í milliflokki.

Og nú í morgun var tilkynnt á blaðamannafundi að samist hefði um samstarf Saab og kínversks bílafyrirtækis sem heitir Hawtai Motor Group. Hawtai leggur Saab til 150 milljónir evra og gefur Saab aðgang að sölukerfi sínu í Kína. Saab hannar og þróar nýja bíla fyrir Hawtai í staðinn.

Hawtai er mjög ungt fyrirtæki í bílaiðnaðinum. Það hóf starfsemi árið 2000 og framleiðir árlega 350.000 bíla, 300.000 dísilmótora og 450.000 sjálfskiptingar. Victor Muller aðaleigandi Saab kvaðst á fundinum í morgun vera sannfærður um að Hawtai væri einmitt rétti samstarfsaðilinn fyrir Saab. Með samstarfinu væri fjárhagurinn tryggur í bili og hægt yrði að greiða skuldir við undirframleiðendur auk þess sem dyr opnuðust inn á hinn risastóra og ört vaxandi kínverska bílamarkað og Hawtai fengi aðgang að mikilli tækniþekkingu sem Saab býr yfir.