Saab fékk mánaðar gálgafrest

Svíar höfðu reiknað með því að framtíð Saab yrði ráðin á stjórnarfundi GM í gær. Það gerðist þó ekki því að stjórnin ákvað að í staðinn fyrir að slátra Saab að reka Fritz Henderson forstjóra sem ráðinn var tímabundið fyrir ekki svo löngu, og ráða Ed Whitacre tímabundinni ráðningu. Saab fær því mánaðar gálgafrest til að finna nýjan kaupanda að meirihlutanum í Saab í stað Koenigsegg sem hætti óvænt við fyrir skemmstu.

 Í Trollhättan þar sem höfuðstöðvar Saab eru, hafa menn verið mjög óttaslegnir undanfarið og viðbúnir því að GM myndi ákeða það á stórnarfundinum í gær að hreinlega ganga úr og skilja Saab eftir gjaldþrota. En það verður þó ekkert létt verk að finna réttan kaupanda að hlut GM í Saab á einungis 30 dögum, en tveir aðilar hafa þó sýnt Saab áhuga undanfarið. Það er kínverska ríkisbílaverksmiðjan BAIC og Bandaríska fjölskyldufyrirtækið Merbanco sem meðal annars fer fyrir víðtækustu framleiðslu landbúnaðarvéla í heiminum og á meðal annars traktoraverksmiðjur Massey Ferguson og Valmet í Finnlandi.

 Hinn nýráðni forstjóri, Ed Whitacre sagði eftir stjórnarfundinn í gær að starfsemin muni halda áfram á fullum dampi undir sinni stjórn, en GM hefði skort forystu. Fritz Henderson sem setið hafði í forstjórastólnum í einungis hálft ár, hefði kosið að hætta og honum hefðu verið þökkuð störf hans. En af orðum Söru dóttur hans á Fésbókinni má ráða að Henderson hafi hreint ekki hætt sjálfviljugur. Dóttirin er mjög stóryrt eins og sjá má hér, og segir að Whitacre, arftaki hans, sé sérgóður skíthæll og GM sé ömurlegt fyrirtæki sem hún muni aldrei aftur kaupa nokkurn hlut frá.

 Í örstuttri fréttatilkynningu sem stjórn GM sendi út eftir stjórarfundinn segir að áhugi fyrir að eignast Saab hafi komið í ljós eftir að Koenigsegg dró síg út úr viðræðum um kaup á Saab. Stjórnin muni næstu 30 dagana meta þau tilboð sem borist hefðu og hvort Saab kynni að eiga sér framtíð. Reynist svo ekki vera, muni verða byrjað á því að vinda ofan af starfsemi Saab á heimsvísu. Vegna samkomulags við viðræðuaðila um fréttabann muni stjórnin ekki ræða málefni Saab frekar fyrr en niðurstaða liggur fyrir.