Saab ræður bloggara til starfa

Saab Automobile hefur ráðið einn ötulasta aðdáanda Saab bíla í alþjóðlegum bloggheimum í fullt starf.

Þessi heiti aðdáandi Saab til fjölda ára er Ástralinn Steven Wade. Steven hefur haldið úti bloggsíðunni SaabsUnited og hefur oft vakið athygli lesenda fyrir að hafa grafið upp ýmsar fregnir og birt þær fyrstur manna á vef sínum SaabsUnited – fregnir sem svo reyndust réttar og sannar. Þessar fregnir hafa gjarnan birst í einskonar Sandskornadálki sem nefnist Deep Throat.

Þegar framtíð Saab var enn í óvissu og jafnvel líkur á að fyrirtækið yrði lagt niður barðist Steven Wade hart gegn öllum slíkum hugmyndum og varð að ósk sinni þegar Hollenska sportbílasmiðjan Spyker keypti Saab af GM.

Þótt Steven Wade sé kominn í fullt starf hjá Saab frá og með 4. apríl sem yfirmaður markaðsmála á Internetinu hjá Saab og búinn að selja SaabsUnited, þá flyst hann ekki til höfuðstöðva Saab í Svíþjóð,  heldur mun hann reka starfsemi sína í Melbourne í Ástralíu. SaabsUnited vefurinn mun halda áfram.