Sænska akademían hótar Benz hörðu

Ný sænsk auglýsingamynd fyrir Mercedes GLA jeppann hefur valdið verulegum pirringi meðal margra Svía og nú hótar sænska akademían því að stefna bílaframleiðandanum fyrir að nota sænskt ljóð í auglýsingunni.

Efalaust hafa þeir sem gerðu auglýsinguna viljað feta svipaða slóð og Volvo gerði í auglýsingu þar sem fótboltakappinn Zlatan Ibrahimović var látinn lesa upp textann við þjóðsöng Svía. Og svipað gerði svo Audi í auglýsingu fyrir Quattro og allt þótti þetta virka vel og fanga athygli neytendanna.

En ljóðið sem Mercedes notar í auglýsingunni fyrir GLA bílinn og sem styrinn stendur um, er eftir skáldið Karin Boye og heitir I rörelse, eða á hreyfingu. Aðalritari og talsmaður sænsku akademíunnar, Peter Englund er ómyrkur í máli og segir að ruddaleg notkun ljóðsins í þessari auglýsingu til að lokka fólk til að kaupa bíla af Mercedes Benz sé hreint og klárt grafarrán. Inntak og boðskapur ljóðsins sé ekki í nokkru samhengi við tilgang auglýsingarinnar.

Sænska akademían hefur skrifað Mercedes bréf. Í því er skorað á forsvarsmenn fyrirtækisins að draga auglýsinguna til baka. Verði það ekki gert er málssókn hótað. Það er auglýsingastofa sem heitir ANR sem gerði auglýsinguna. Talsmaður hennar greinir sænskum fjölmiðlum frá því að leitað hafi verið leyfis hjá Karin Boye-félaginu sem fer með höfundarrétt verka skáldsins, til að nota ljóðið í auglýsingamyndinni. Það leyfi hafi félagið veitt og þessvegna sé grundvöllur akademíunnar fyrir málaferlum harla veikur.