Sænskar unglöggur slakir ökumenn

http://www.fib.is/myndir/Svenskpolis.jpg
Sænskir lögreglumenn sem m.a. eiga að fylgjast með öðrum ökumönnum og sjá til þess að þeir aki vel og í samræmi við lög og reglur eru sjálfir ekki alltaf með allt á hreinu, hvorki hvað varðar ökuhæfni né kunnáttu ú umferðarlögum og –reglum. Þetta leiðir ný sænsk skýrsla í ljós.

Starf lögreglumanna er mjög mikilvægt tæki til þess að halda slysum og óhöppum í umferðinni í skefjum og fækka látnum og slösuðum. Starf lögreglumanna er m.a. fólgið er í viðveru og sýnileika í umferðinni, í því að fylgjast með og mæla umferðarhraða og hvort ökumenn séu sjálfir í lagi og ódrukknir, séu með beltin spennt o.s.frv. Þá þurfa þeir að geta gripið inn í atburðarásina þegar ökumenn fara á skjön við reglur og lög. Til þess að geta leyst sitt mikilvæga starf vel af hendi verða lögreglumenn, ekki bara sérhæfðir umferðarlöggæslumenn, heldur allir - að kunna vel til aksturs og vera vel að sér í lögum og regluverki umferðarinnar.

Svenska Dagbladet greinir frá því í dag að kunnátta sænskra lögreglumanna í umferðarmálum sé gloppótt og aksturshæfni þeirra sumra ekki sú sem hún ætti að vera og vitnar í skýrslu frá sænska vegaeftirlitinu sem yfirheyrt hafi lögreglumenn hjá fjórum lögregluembættum í Svíþjóð. Í lokaorðum þessarar skýrslu er mælst til þess að ríkislögreglustjóri Svíþjóðar geri áætlun um að mennta lögreglumenn í umferðaröryggismálum, ekki síst þá sem ekki fást við umferðarmál eingöngu.-, og fylgi áætluninni eftir.

Blaðið hefur eftir stjórn Stokkhólmslögreglunnar að það sé nokkurt vandamál hversu nýutskrifaðir lögreglumenn séu slakir ökumenn og umtalsverl slakari en æskilegt megi teljast. Lögreglumenn sem Svenska Dagbladet hefur rætt við benda á að sífellt fleira ungt fólk bíði með að taka ökupróf þótt bílprófsaldri hafi verið náð. Talsverður hópur þeirra sem sækja inn í lögregluskólana taki bílprófið fyrst í tengslum við umsókn vegna þess að bílpróf er skilyrði fyrir því að komast inn í skólana og fá starf sem lögreglumaður. Þetta þýði að unga fólkið hafi mjög litla akstursreynslu þegar það hefur störf innan lögreglunnar.