Sænski Pewano bíllinn fallinn úr keppni

Það varð stutt í Dakar rallkeppninni hjá sænska liðinu sem hóf keppni í nýjársdag. Í fyrsta áfanga keppninnar gaus upp mikill eldur í bílnum og brann hann til grunna án þess að við nokkurt yrði ráðið. Sagt var frá hinu sænska Pewano-Volvo keppnisliði hér á vefnum þann 1. des. sl.

Þeir Alfie Cox og aðstoðarökumaðurinn Jürgen Schröder voru á miðri fyrstu sérleið keppninnar  milli Mar del Plata og Santa Rosa de la Pampa þegar skyndilega gaus upp mikill eldur í vélarrúmi bílsins. Við ekkert varð ráðið og brann allt sem brunnið gat í bílnum þannig að erfitt hefur verið að finna út úr því hver ástæðan var. Liðsstjóri hins sænska Pewano liðs segir við fjölmiðla að líklegasta orsökin sé sú að vökvaþrýstislanga fyrir stýrið, eða vökvastýrisdælan hafi gefið sig og olía sprautast yfir sjóðheita vélina og eldurinn þar með kviknað.

Hvorki Alfie Cox né Jürgen Schröder sakaði, en Cox sagði eftir atvikið að það hefði vissulega getað farið verr, en það versta sem fyrir keppnismenn í bílaíþróttum gæti komið, væri að festast inni í brennandi bílnum. „Við komumst út í tæka tíð alls ómeiddir, en okkur er vissulega illa brugðið,“ sagði Alfie Cox, sem er frá S. Afríku. Hann sagði að bíllinn hefði virkað afar vel fram að óhappinu. Aksturseiginleikar hans hefðu verið frábærir og auðvelt að halda uppi miklum hraða á honum enda hefðu þeir verið meðal fyrstu bíla á sérleiðinni þegar eldurinn gaus upp.

En bruni sænska bílsins var ekki eina óhappið þennan fyrsta keppnisdag Dakarrallsins 2012 því að einn af mótorhjólakeppendunum féll á hjóli sínu og lést samstundis.