Sænskt rafgeymapróf

Í kuldakastinu í Skandinavíu að undanförnu hefur reynt verulega á rafgeyma í bílum. Þegar frostið fer þetta 10-40 gráður undir frostmarkið stórminnka afköst geymanna auk þess sem vélarolían í bílnum verður þykk eins og sýróp. Það er því ekki óeðlilegt að menn vilji komast að því hvaða rafgeymar þola þessar aðstæður best og taki sig því til að og prófi afköst algengustu rafgeymategunda.

Testfakta í Svíþjóð hefur látið gera könnun á átta tegundum rafgeyma. Uppgefin afköst allra geymanna voru 62-64 amperstundir og allir voru geymarnir ámóta stórir um sig eða 242x175x190 mm. Tegundirnar sem prófaðar voru eru: Banner P6219,

Biltema 802622,

 Bosch 0092 S50 050,

 Exide EA640,
 Global 56219,

 OKQ8 214208,
 Tudor TA640,

 Varta 563 400 061.   

Rýmd geymanna var metin út frá því hversu langan tíma tók að afhlaða hvern þeirra. Með því að endurtaka afhleðsluna í þrígang eða oftar fékkst jafnframt sýn á hversu endingargóðir geymarnir eru.

Afköst geymanna var metin þannig að spennan er mæld eftir tíu sekúndna útstreymi 500 ampera straums. Ennfremur var mælt hversu langan tíma tekur fyrir spennuna að falla úr 12 voltum í 6 volt við 300 ampera útstreymi.  Því lengri sem þessi tími er, þeim mun öflugri er geymirinn. Þessar mælingar voru gerðar annarsvegar í 20 gráðu hita og -18 gráðu frosti.

Ennfremur var vatnsuppgufun frá geymunum mæld, en því minna sem gufar upp frá geymi af vatni, þeim mun betri er ending hans vegna þess að sýrustigið verður stöðugra.

Árangur geymanna var loks metinn til einkunna frá 1-5 og er hæsta einkunn 5. Afköst í sumarhita höfðu 10 prósenta vægi innan heildareinkunnarinnar, afköst í kulda höfðu 30 prósenta vægi, afköst í kulda eftir sex afhleðslur höfðu 30 prósenta vægi, rýmdin hafði 25 prósenta vægi og vatnsuppgufun hafði 5 prósenta vægi. Sjá nánar niðurstöður á mynd.

http://www.fib.is/myndir/Geymatest.jpg