Sainz sigraði

Dakar rallinu er lokið með sigri Spánverjans Carlos Sainz. Sigurinn var naumur því að eftir um 9 þúsund kílómetra akstur á vegum, vegarslóðum og algerum vegleysum voru það einungis tvær mínútur sem skildu milli Sains og Nasser Al Attiyah frá Qatar sem eins og Sainz keppti fyrir Volkswagen. VW hreppti einnig þriðja sætið. Því náði Bandaríkjamaðurinn Mark Miller.

 Eins og síðasta ár, fór Dakar rallið fram í S. Ameríku. Það hófst í Buenos Aires í Argentínu. Þaðan lá leiðin í norðvesturátt til Chile og Kyrrahafsstrandarinnar, svo suður eftir Chile uns beygt var aftur til austurs til Buenos Aires á ný, en þar endaði svo keppnin og fór verðlaunaafhending fram í gær.

Hörð keppni varð milli þeirra Sainz og Al Attiyah í síðustu áföngum keppninnar en Al Attiyah saxaði stöðugt á forskot Sainz og einungis  tvær mínútur og 12 sekúndur skildu í milli þeirra í lokin. Fréttamenn sem fylgdust með keppninni segja þó sumir að Al Attiyah hafi ekki beitt sér af alefli gegn liðsfélaga sínum Sainz í Volkswagen liðinu.

 Gamla Mitsubishi kempan Stephane Peterhansel frá Frakklandi sem nú keppti fyrir BMW varð í fjórða sæti. Í fimmta sæti varð einnig BMW bíll en honum ók Frakkinn Chicherit en aðstoðarökumaður hans er hin sænska Tina Thörner.

Lokaúrslit
1. Carlos Sainz VW 47h10m00s
2. Nasser Al-Attiyah VW + 2m12s
3. Mark Miller VW + 32m51s
4. Stephane Peterhansel BMW + 2h17m21s
5. Guerlain Chicherit BMW + 4h02m49s
6. Carlos Sousa Mitsubishi + 4h31m45s
7. Giniel de Villiers VW + 5h10m19s
8. Robby Gordon Hummer + 6h02m24s
9. Orlando Terranova Mitsubishi + 6h04m47s
10. Guilherme Spinelli Mitsubishi + 6h13m41s