Sala á bensíni stórminnkar í Svíþjóð milli ára

Sala á bensíni í Svíþjóð minnkaði gríðarlega mikið á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Lang mestur samdráttur varð í sölu á bensíni, en einnig mikill í öðrum orkugjöfum að E85 (85% etanól) undanteknu. Þessi mikli samdráttur verður ekki skýrður með minni bílanotkun nema að litlu leyti. Meginskýringin er sú að í Svíþjóð endurnýjast bílaflotinn jafnt og þétt og fólk endurnýjar yfir í sparneytnari bíla. Þetta eru niðurstöður Svenska Petroleum & Biodrivmedel Institutet (SPBI).

Í heild dró úr sölu alls bifreiðaeldsneytis um 5 prósent. Bensínsalan minnkaði um hvorki meira né minna en 8,5 prósent eða um 176.900 rúmmetra og alls seldust 1.910.000 rúmmetrar á fyrri helmingi ársins. Sala á dísilolíu minnkaði um 2 prósent eða um 56 þús. rúmmetra og alls seldust 2.552.900 rúmmetrar af henni.

Sala etanólblöndunnar E85 jókst lítilsháttar eða um 5.600 rúmmetra milli samanburðartímabilanna. Heildarsala á E85 á fyrra helmingi þessa árs varð 113.200 rúmmetrar.

Framkvæmdastjóri SPBI segir við Auto Motor & Sport að meginskýring á á minnkandi eldsneytissölu sé sparneytnari bílar en hæggengara atvinnulíf skýri að nokkru samdráttinn í sölu á dísilolíu.

Hér á Íslandi verður samdráttur í eldsneytissölu einkum skýrður með minni bifreiðanotkun og þar með minni umferð. Endurnýjun íslenska bílaflotans er afar hæg og langt undir því sem kalla mætti eðlilega og hlutfall nýrra og eyðslugrannra heimilisbíla í bílaflotanum er allt og lágt. Segja má að um helmingur seldra nýrra bíla á þessu ári séu bílaleigubílar. Til að halda meðalaldri íslenska bílaflotans nokkurnveginn í horfinu má gera ráð fyrir því að um 10 þúsund nýir bílar þyrftu að bætast við á ári.