Samakstur

Félagið Leið ehf hefur forgöngu um samnýtingu einkabíla og hefur látið hanna sérstök upplýsingaskilti til leiðbeiningar bæði ökumönnum einkabíla og þeim sem ekki hafa ökutæki til umráða en þurfa að komast frá einum stað til annars. Nú fer fram sex mánaða prófun á þessari hugmynd í samvinnu Leiðar ehf og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Sett hafa verið upp skilti í Bolungarvík og á Súðavík þar sem bíllaust fólk getur stillt sér upp og óskað fars með einkabílum sem hjá aka gegn því að taka þátt í kostnaði ökumanns.

http://www.fib.is/myndir/Rideshare.jpg
Samakstursskiltið. Allar helstu upplýsingar
að finna á skiltinu sem staðsett er við upp-
tökustað farþega.

Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík er höfundur hugmyndarinnar og talsmaður Leiðar ehf. Hann segir að á tímum eins og nú þegar eldsneyti á bíla sé mjög dýrt í landi með gisið almannasamgöngukerfi, hljóti það að vera allra hagur að stuðla að betri nýtingu einkabíla sem oftar en ekki eru á ferðinni með tvö til þrjú sæti auð um skemmri og lengri veg.

Á því skilti sem Leið ehf hefur sett upp er miðað við að farþegar taki þátt í kostnaði ökumanns við aksturinn og greiði beint til hans fyrir farið. Upphafs- eða startgjald á mann er 200 kr. og síðan 10 kr. á kílómetra fyrstu 100 km en 5 kr. á km eftir það. Er miðað við að um hámarksgjald sé að ræða. Þá er miðað við að farþegar séu ekki yngri en 16 ára nema samþykki forsjármanns liggi fyrir en að ósk sveitarstjórnar í Súðavík er miðað við 18 ára aldur farþega og ökumanns þar. Gefið er upp símanúmer sem hringja má í ef afla þarf upplýsinga eða koma einhverju á framfæri og vísað er á vef, sem reyndar hefur enn ekki verið lokið við, www.bilfar.is, þar sem frekari upplýsingar og fróðleik verður að fá.

Jónas segir að þessum ferðamáta sé ekki ætlað að keppa við aðra ferðamáta eða þær almenningssamgöngur sem eru í boði heldur fremur að vera viðbót við þær, t.d. á þeim tímum eða dögum sem þær bjóðast ekki. Getur því falist í þessu ákveðið öryggi og hagræði fyrir þá sem þurfa að komast á tímum þegar aðrar samgöngur bjóðast ekki. Ætti þessi ferðamáti því mögulega að geta dregið úr þörf fyrir einkabílinn og kostnað við notkun hans en kostnaður við að eiga og reka bifreið hefur sennilega sjaldan verið hærri og þeir án efa nokkrir sem hreinlega hafa ekki ráð á að eiga og reka einkabíl. Einnig verður að telja að þessi ferðamáti dragi úr útblæstri sem nemur færri ferðum og sé því umhverfisvænn.

Jónas sér fyrir sér að koma mætti fyrir skiltum sem þessum víða um land t.d. á hinum ýmsu þéttbýlisstöðum þar sem almenningssamgöngur eru ekki mjög tíðar. Yrði þetta jafnvel skilgreint sem hluti af almenningssamgöngukerfi viðkomandi sveitarfélags eða svæðis en af hálfu Leiðar ehf. sé við það miðað að það sé sveitarfélags á hverjum stað að ákveða eða heimila hvort skilti sem þetta sé sett upp og þá hvar og gerður um það þjónustusamningur. Ef um stað við veg utan þéttbýlis væri að ræða væri það hins vegar Vegagerðarinnar.

Ekki sé ósennilegt að erlendir ferðamenn kunni að nýta sér þennan möguleika til að komast um landið og þá um leið kynnast landi og þjóð á nýjan og vonandi jákvæðan hátt.