Samakstur í Danmörku

FDM, sem er systurfélag FÍB, hefur hleypt af stokkunum átaki meðal félagsmanna. Það felst í því að nýta betur einkabíla og lækka reksturskostnaðinn. Átakið felst í því að fjölga fólki í hverjum bíl á leið milli staða, t.d. til og frá vinnustað.

Er einhver á leið frá Jótlandi til Kaupmannahafnar og vantar farþega í bílinn sem taka þátt í kostnaðinum? Er pláss í bílnum hjá mér fyrir einhvern eða einhverja á sömu leið til og frá vinnu?

Ef svarið er já við spurningum af þessu tagi geta félagsmenn FDM skráð sig á sérstakri heimasíðu hvort heldur þá vanti far eða hafi laust rými í eigin bíl. Þetta fyrirkomulag kalla þau hjá FDM samkørsel eða samkeyrslu.

 Heimasíðuna fyrir samkeyrslu FDM er að finna hjá GoMore, sem er sérstök bókunarsíða fyrir samflot og hefur verið starfandi um allnokkurt skeið fengið mjög mikla aðsókn. Þar er boðið upp á ókeypis bókunarþjónustu sem einn af kostum félagsaðildar að FDM. Almennt þurfa notendur heimasíðunnar að greiða 9% fargjalds eða þátttökugjalds. Félagar í FDM þurfa hins vegar ekkert að greiða af fargjöldum annarra félagsmanna. Bjóði þeir hinsvegar utanfélagsmönnum far, þurfa þeir að greiða 9 prósentin af fargjöldum þeirra.

 Frá þessu er sagt á heimasíðu FDM og jafnframt eru kostir samkeyrslu tíundaðir. Þeir eru að þeir sem áður óku einir fá félagsskap. Þá fækkar bílum á vegum og eldsneyti sparast við það að í stað tveggja eða fleiri bíla dugar nú einn í sama tilgangi.