Samgönguáætlun á Íslandi og í Noregi

The image “http://www.fib.is/myndir/R%F6gnvaldurJ%F3nsson.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur. 

 Hér á eftir mun ég gera grein fyrir gerð samgönguáætlana á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð og greina frá hvernig gerð samgönguáætlunar á Íslandi er frábrugðin gerð samgönguáætlana í Noregi og Svíþjóð.

Hjá okkur undirbýr samgönguráð samgönguáætlun. Samgönguráð er þannig skipað að formaður er skipaður af samgönguráðherra og einnig eru skipaðir forstjórar Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar. Ritari er frá samgönguráðuneyti og einnig vinna fleiri að áætluninni frá ráðuneytinu. Áætlunin er því sameiginleg skýrsla samgönguráðuneytisins og stofnana þess. Að lokum leggur ráðherra áætlunina fyrir Alþingi til samþykktar.

Það er því nokkuð ljóst að ef ágreiningur kemur upp t.d. á milli stofnunar og ráðuneytis við gerð samgönguáætlunar þá ræður ráðuneytið. Þetta leiðir til þess að ekki er hægt að greina í samgönguáætluninni hvað eru stjórnmálalegar tillögur og hvað eru tæknilegar. Þessi vinnubrögð leiða einnig til að stofnanirnar eiga erfitt um vik að koma fram sínum sjónarmiðum falli þær ekki að hugmyndum ráðherra..

Ég þekki best til hvernig Norðmenn haga vinnubrögðum sínum við gerð samgönguáætlunar en Svíar vinna hana á svipaðan hátt. Forstöðumenn stofnana samgönguráðuneytisins mynda samgönguráð undir stjórn stærstu stofnunarinnar sem er vegagerðin. Vinnan fer öll fram innan stofnananna og í Noregi voru lagðar fram yfir sjötíu skýrslur sem samgönguáætlunin sem nú gildir byggðist á. Þegar vinnu er lokið við gerð áætlunarinnar þá boðar samgönguráð til fréttamannafundar og samtímis er samgönguráðherra afhent áætlunin. Samgönguráðherra breytir samgönguáætluninni ef honum sýnist svo og leggur hana fyrir þjóðþingið til samþykktar.

Hér er því alveg ljóst hverjar eru tæknilegar forsendur áætlunarinnar sem ráðherra leggur fram og hverjar eru hans eigin. Þannig er því hægt að ræða áætlunina annars vegar út frá tæknilegum forsendum og hins vegar út frá stjórnmálalegum forsendum. Öll umræða verður því markvissari og það liggur ljóst fyrir hverjar voru tillögur stofnananna og hverjar voru breytingartillögur ráðherra.

Nú hefur samgönguráðherra Íslands kynnt samgönguáætlun fyrir næstu 12 árin en enginn veit hvaða tillögur stofnanirnar lögðu fyrir samgönguráð og þá jafnframt fyrir samgönguráðherra. Ég tel að með þessum vinnubrögðum þá hafi sjálfstæði stofnananna verið skert sem má marka af því að það er samgönguráðherra sem kynnir samgönguáætlunina og veitir henni brautargengi en stofnanirnar láta lítið í sér heyra enda eiga þær erfitt um vik þar ráðherra virðist hafa tekið frumkvæðið af þeim.

Í næstu greinum mínum mun ég fjalla um þá samgönguáætlun sem ráðherra hefur nú kynnt, skoða markmið hennar, framkvæmdaáætlun fyrir nýja vegi, áætlanir um lagfæringu vegakerfisins og hvernig þjónustu við megum búast við á næstu árum.