Samgönguáætlun til 15 ára samþykkt

Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020-2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020-2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi í vikunni. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019.

Nýsamþykkt samgönguáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum um land allt. Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Sérstök 6,5 milljarða aukafjárveiting fyrir samgönguframkvæmdir árið 2020 úr fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor vegna Covid-19 hefur verið felld inn í áætlunina.

Grunntónn samgönguáætlunar er að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og markvissar aðgerðir til draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í áætluninni er einnig kappkostað að fjölga og flýta samgönguframkvæmdum frá fyrri áætlun en við það skapast fjölmörg ný störf þegar í ár og næstu ár. Alls er áætlað að 8.700 störf verði til á næstu árum vegna framkvæmda vegna samgönguáætlunar.

„Nýsamþykkt samgönguáætlun er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. á vef ráðuneytisins.

Fjölmörgum framkvæmdum um land allt er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Sérstök áhersla verður lögð á að aðskilja akstursstefnur á umferðarþungum vegum frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð. Einnig verður einbreiðum brúm fækkað á þjóðveginum.

Lög um samvinnuverkefni samþykkt

Þá voru einnig samþykkt ný lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum (PPP) en þau heimila samstarf hins opinbera og einkaaðila um tilteknar framkvæmdir við samgöngumannvirki og gjaldtöku vegna þeirra. Markmið laganna er að flýta uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða enn frekar, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi. Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

„Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið aðra leið en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi,“ segir ráðherra.

Uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu

Þá voru ennfremur samþykkt lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmdir munu byggjast á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra.

„Með samgönguáætlun og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu,“ segir ráðherra.

Sérstök jarðgangaáætlun í fyrsta sinn

Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt í fyrsta sinn í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við það að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.