Samgönguöryggi ógnað með fíkniefnaakstri

Fjöldi slasaðra vegna fíkniefnaaksturs.
Fjöldi slasaðra vegna fíkniefnaaksturs.

Ógnvægileg þróun er að eiga sér stað sem rekja má til fíkniefnaaksturs í umferðinni . Fyrstu fjóra mánuði þessa árs slösuðust 47 einstaklingar í umferðarslysum vegna fíkniefnaaksturs sem er mikil fjölgun við sama tímabil á síðasta ári. Fjölgunin nemur um 124% en á sama tímabili á árinu 2017 slasaðist 21 einstaklingur.

Af heildarfjölda alvarlega slasaðra fyrstu fjóra mánuði ársins eru 14% vegna fíkniefnaaksturs og 9% vegna ölvunaraksturs. Lögreglan og Samgöngustofa hafa hafið samvinnu með það að markmiði að vinna að því með öllum ráðum að fækka fjölda slysa vegna fíkniefnaaksturs.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri á Samgöngustofu, segir í samtali við vefsíðu FÍB þessa þróun mikla ógn við heilsu landsmanna, ekki bara þeirra sem eru í fíkniefnum, heldur líka þeirra sem í sakleysi sínu er á ferð í umferðinni.

 ,,Við sjáum mikla aukningu í fíkniefnaakstri og af spáin gengur eftir, sem byggð er á tölum ársins 2017, munum við bara sjá fram á aukningu. Miklu fleiri munu slasast af völdum fíkniefnaaksturs heldur en okkur hefði órað fyrir. Þetta er bara ein birtingamyndin á fíkniefnavandanum,“ segir Þórhildur í samtalinu við FÍB.

Þórhildur segir að nú standi fyrir dyrum ákveðið samtal á milli Samgöngustofu og lögreglunnar um það hvaða aðferðum væri hægt að beita til að stemma stigu við þessari þróun. Það eru takmarkanir á hvað þessar tvær stofnanir geti lagt að mörkum af því að vandamálið sé miklu viðtækara en svo. Þórhildur segir engar töfralausnir á borðinu en þetta sé mál sem varði samfélagið allt. Þetta snýst ekki bara um eftirlit eða forvarnir heldur snýr þetta að heilbrigðis- og félagamálayfirvöldum. Svona viðtækur samfélagsvandi verður ekki meðhöndlaður með eftirá aðgerðum eða með þröngum aðgerðum. Það þurfi í rauninni að eiga sér stað miklu meira samstarf.

,,Við höfum í hyggju að efla samstarfið við lögregluna en það er okkar aðalsamstarfsaðili. Við erum alltaf að sjálfsögðu alltaf opin fyrir samstarfi við aðila sem málið varðar. Þetta er spurning um hvaða leiðir er hægt að fara, hverjir eiga að koma að borðinu, og hver á að hafa forgöngu um málaflokkinn. Heilbrigðisyfirvöld eru að takast á við þetta vandamál á hverjum einasta degi og félagsmálayfirvöld þá ekki síður. Þessi birtingamynd að saklaust fólk verði beinlínis fórnarlömb fíkniefnaaksturs er bara í rauninni ný staða sem við erum að sjá í fyrsta skipti í þessu mæli. Við erum ekkert að skera okkur frá öðrum löndum og þetta sé vaxandi vandamál víðar en hér. Við höfum miklar áhyggjur að því að samgönguöryggi okkar allra er ógnað með áhættu hegðun fárra en þó sífellt fleiri,“ sagði Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri á Samgöngustofu, í samtali við FÍB.