Samgönguráðherra talar fyrir vegatollum á öllum leiðum út frá Reykjavík

Jón Gunnarsson samgönguráðherra var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.  Hann telur að með vegtollum megi fara í tugmilljarða framkvæmdir í vegakerfinu árlega næstu árin.  Vegtollanefnd ráðherra mun skila tillögum sínum fyrir sumarlok. Sjá nánar hjér

Framsetning Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á hugmyndinni um að setja upp gjaldhlið á vegina inn og út úr Reykjavík og rukka vegatolla af vegfarendum og verja þeim til endurbóta og viðhalds í vegakerfinu orka mjög tvímælis. Ráðherrann og aðrir talsmenn þessa vitna gjarnan til annarra þjóða sem sagðar eru hafa fetað sig inn á þessa vegatollabraut og svo auðvitað til blankheita ríkisins og hraklegs ástand vegakerfisins.

Í þessu tali öllu er það sagt sjálfsagt og eðlilegt að leggja viðbótarskatta með vegatollum á notendur veganna.  Þeir greiði eitthvert lítilræði fyrir afnotin af þessum fjölförnustu vegarköflum landsins. Ná þurfi peningum af erlendum ferðamönnum og öngla saman  nægum tekjum til að ráðast í verulegar endurbætur á meginleiðunum næst höfuðborginni og einnig til að standa undir framkvæmdum í öðrum landshlutum.

Vegatollainnheimta er mjög dýr og óskilvirk fjáröflunarleið. Það er mjög dýrt að setja upp og reka gjaldhliðin. Það hefur sýnt sig í Stokkhólmi í Svíþjóð.  Þar hafa verið sett upp rafræn og sjálfvirk gjaldhlið á leiðirnar inn í miðborgina. Tilgangurinn var þó ekki sá að skrapa saman peninga til að lappa upp á sænska vegakerfið heldur til að draga úr bílastraumi inn í miðborgina.

Þótt uppsetning gjaldhliðanna í Stokkhólmi hafi verið fremur einföld og gjaldhliðin fá, varð framkvæmdin engu að síður mjög dýr -kostaði rúma 25 milljarða ísl. kr. Víst má telja að samskonar kerfi umhverfis Reykjavík yrði ekki ódýrara í uppsetningu auk þess sem miklu minna mun innheimtast hér vegna þess að íbúar Reykjavíkur, upptökusvæðis borgarinnar og landsins alls eru svo miklu færri. Bara íbúar Stokkhólmsborgar eru  2 milljónir og 232 þúsund. Íbúar Höfuðborgarsvæðisins eru einungis tíundi hluti þess fjölda.  Þá heimsækja Stokkhólm margfalt fleiri ferðamenn, ekki síst þeir sem koma akandi, heldur en Reykjavík. 

Það gefur því auga leið að ábatinn af því að gera meginvegina inn í Reykjavík, þessar eignir almennings, upptækar og gefa einhverjum hlutafélögum er í meira lagi vafasöm fjáröflunarleið, svo ekki sé minnst á hinar lagalegu og siðferðilegu hliðar slíks gjörnings. En verði þetta gert, þá verða væntanlega stofnuð hlutafélög, ehf eða ohf eftir atvikum, stjórnir verða skipaðar, framkvæmdastjórar ráðnir og launakjör þeirra og stjórnarmanna og stjórnarformanna verða ákveðin, húsnæði keypt eða leigt til starfseminnar og starfsmenn ráðnir. Undir öllu þessu þurfa vegatollarnir að standa sem og undir stofn- og rekstrarkostnað gjaldhliðanna og innheimtukerfisins.

FÍB deilir því með samgönguráðherra að núverandi ástand vegakerfisins er óþolandi og aðför að öryggi borgaranna. Þá er til þess að líta að heildarskattheimta af bílum og umferð á þessu ári verður um 70 milljarðar króna. Hátt í helmingur hennar eða tæplega 35 milljarðar eru bensín- og olíugjöld, sem hvort um sig er föst krónutala, og bifreiðagjaldið en upphæð þess ræðst af koltvísýringslosun eða þyngd bifreiða. Eðlilegast væri að þessir tæpu 35 milljarðar færu óskiptir til nýframkvæmda, rekstrar og viðhalds vegakerfisins en svo er hreint ekki. Þarna ætti samgönguráðherra að beita sér í stað þess að boða stórfellda nýja skatta.

Ef helmingur núverandi bílaskatta skilaði sér til vegagerðar þá væri ekki verið að deila um vegatollamál við stjórnmálamenn, oftar en ekki þá sömu sem hafa miðlað eyrnamerktu vegafé í annað en vegi, t.d. til framkvæmda við hafnir og flugvelli.  Sama á við um jarðgöngin milli Húsavíkur og stóriðjusvæðisins á Bakka sem eingöngu eiga að þjóna kísilverinu á Bakka en ekki almennum notendum þjóðvegakerfisins.

Í stað þess að verja fyrrnefndum tæpum 35 milljörðum til viðhalds, rekstrar og nýframkvæmda á þessu ári verður einungis varið 22 milljörðum að viðbættum 1.200 milljónum sem ríkisstjórninni ,,tókst” að finna alveg nýlega. Það þýðir þá að af innheimtum heildarsköttum á bifreiðar og bifreiðanotkun munu einungis 33 prósent renna til framkvæmda og viðhalds þjóðvegakerfisins sem hefur verið illa vanrækt árum saman eða allt frá hruni. Svo boða menn nýja viðbótarskattheimtu í ofanálag við það sem landsmenn greiða nú þegar af bifreiðum og bifreiðanotkun og reyna að segja fólki að vegatollarnir séu ekki skattheimta heldur notkunargjöld.

 

Það hefur ætíð verið og er skoðun FÍB að innheimta notkunargjalda í vegakerfinu til viðhalds og nýframkvæmda skuli vera skilvirk og sanngjörn. Vegatollahugmyndin er hvorugt.