Samkeppniseftirlitið heimilar samruna N1 og Festi

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup N1 hf. á Festi hf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Með skilyrðunum skuldbinda samrunaaðilar sig til aðgerða sem miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum og bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

N1 skuldbindur sig m.a. til þess að selja eldsneytisstöðvar til nýs keppinautar, selja dagvöruverslun Kjarval á Hellu, auka aðgengi endurseljenda að birgðarými, dreifingu og eldsneyti í heildsölu og tryggja samkeppnislegt sjálfstæði félagsins. Er um að ræða víðtækari aðgerðir af hálfu N1 en áður hafa verið kynntar við meðferð málsins.

Umræddar eldsneytisstöðvar sem sameinað félag skuldbindur sig til að selja eru þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík.

Fram kemur m.a. að N1 skuldbindur til þess að selja tilteknar eldsneytisstöðvar, vörumerkið „Dæluna“ og grípa til annarra nánar tilgreindra aðgerða til þess að nýr óháður aðili geti hafið virka samkeppni á eldsneytismarkaði. Jafnframt skuldbindur N1 sig til þess að tryggja að áform um sölu eigna til burðugs keppinautar nái fram að ganga.

Með þessum aðgerðum er brugðist við þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að með kaupum N1 á Festi sé síðarnefnda fyrirtækið að hverfa sem mögulegur sjálfstæður keppinautur á eldsneytismarkaði, en eins og kunnugt er hafði Festi áform um slíkt.

Þá skuldbindur N1 sig  til þess að selja nýjum endurseljendum sem eftir því leita allar tegundir eldsneytis í heildsölu á viðskiptalegum grunni, með nánar tilgreindum skilmálum. Er N1 skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim sem kaupa eldsneyti í heildsölu.

Jafnframt skuldbindur N1 sig til þess, sem annar aðaleigenda ODR, að grípa til tiltekinna aðgerða til þess að tryggja aðgengi seljenda eldsneytis að birgðarými og þjónustu hjá ODR.

Með þessum aðgerðum er brugðist við samkeppnisröskun sem leiðir af samþættingu eldsneytis- og dagvörufyrirtækja, þ.e. milli N1 og Festi, og rudd braut fyrir virkari samkeppni á eldsneytismarkaði.

Á næstunni mun Samkeppniseftirlitið birta fullbúna ákvörðun vegna málsins, en þar verður nánari grein gerð fyrir meðferð málsins, undirliggjandi rannsóknum og þeim aðgerðum sem framangreind sátt mælir fyrir um.

Við meðferð málsins hefur Samkeppniseftirlitið haft hliðsjón af gildandi reglum, leiðbeiningum og fordæmum á hinu Evrópska efnahagssvæði, s.s. um rannsóknir samruna af þessu tagi og mótun skilyrða, t.d. um sölu eigna.