Samningar undirritaðir um Vaðlaheiðargöng

Í gær var skrifað undir samkomulag milli fjármálaráðuneytis og hlutafélagsins Vaðlaheiðargöng hf. Tveir þingmenn Norðurkjördæmis, þar sem göngin verða, voru viðstaddir. Þeir eru Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Kristján L. Möller fyrrverandi samgönguráðherra, öflugur talsmaður Vaðlaheiðarganga og breyttrar innheimtu veggjalda. Kristján situr í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. og ritaði nafn sitt undir samningana sem slíkur. Hvorki innanríkisráðherra né vegamálastjóri virðast hafa verið viðstaddir undirritunina

Í fréttum af viðburðinum má lesa að umrætt samkomulag er um að ríkissjóður, sem fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt að sé galtómur, láni Vaðlaheiðargöngum hf. framkvæmdafé. Það verði gert með því að ríkissjóður kaupi skuldabréf af Vaðlaheiðargöngum hf jafnt og þétt á framkvæmdatímanum (Vaðlaheiðargöng hf, eru 51% í eigu ríkisstofnunarinnar Vegagerðarinnar). Þegar göngin svo verði opnuð muni Vaðlaheiðargöng hf. innheimta veggjald til að endurgreiða lánið til ríkisins. „Félagið er framkvæmdaaðilinn og er með lánin, og ríkið er því bara innan handar með fjármögnun á byggingartímanum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og þingmaður kjördæmisins þar sem göngin verða, þegar samningurinn var undirritaður. 

Af þessum orðum má ljóst vera að fjárhagur ríkissjóðs hefur snöggbatnað og er orðinn mun betri en fjármálaráðherra hefur áður lýst. Sjóðurinn hefur augljóslega með þessum skjóta bata öðlast aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum fyrst hann getur með þessum hætti fjármagnað framkvæmd sem styttir Hringveginn um 16 kílómetra og aksturstíma um ca. 8 mínútur (samkvæmt nýrri mælingu EuroRAP á Íslandi). Hinn bætti hagur ríkissjóðs hlýtur nú að vekja bjartar vonir í brjóstum Íslendinga um að hægt verði skjótlega að ráðast í ýmsar enn meira aðkallandi framkvæmdir í samgöngumálum landsins alls, t.d. ný göng undir Oddsskarð til Neskaupstaðar (þar sem m.a. sjúkrahús Austfirðingafjórðungs er) og bætta vegi á Vestfjörðum sunnaverðum og nauðsynlegar endurbætur og viðhald í vegakerfinu, svo fátt eitt sé nefnt.

 Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins er greint frá því að allir þeir sex aðilar sem óskað hafa eftir að fá að gera tilboð í að bora Vaðlaheiðargöng hafi reynst til þess hæfir. Þeir eru Marti Contractors í Sviss í samvinnu við ÍAV, Metrostav í Tékklandi í samvinnu við Suðurverk, Per Aarslev, Danmörku/JK. Petersen Færeyjum, Leonhard Nilsen & Sønner AS í Noregi og loks íslensku fyrirtækin Ístak og Norðurverk. Norðurverk er samsteypa sex íslenskra verktakafyrirtækja.