Samruni Fiat, Opel, Saab og Chryslers?

http://www.fib.is/myndir/Fiat_330.jpg

Sergio Marchionne forstjóri Fiat hugsar stórt þessa dagana og leggur drög að nýjum bílarisa með því að sameina Fiat, Opel/Vauxhall, Saab og Chrysler. Gangi þetta eftir verður til næst stærsta bílafyrirtæki veraldar sem framleiða mun 6-7 milljón bíla árlega. Marchionne átti fund með fulltrúum þýsku ríkisstjórnarinnar í dag um málið. Obama Bandaríkjaforseti hefur áður samþykkt áætlun hans um að yfirtaka rekstur Chrysler gegn yfirtöku á 20 prósenta hlut í Chrysler.

Sergio Marchionne átti í dag fund með Frank-Walter Steimmeier aðstoðarkanslara Þýskalands Karl-Theodor zu Guttenberg atvinnumálaráðherra og Klaus Franz talsmanni starfsmanna Opel. Á fundinum lagði hann fram áætlun sína um að sameina fyrrnefnda bílaframleiðendur og skapa með því nýtt evrópskt risafyrirtæki með yfir 80 milljarða evra veltu og 6-7 milljón bíla ársframleiðslu. Marchionne sagði í samtali við Financial Times í gær, sunnudag, frá hugmynd sinni um þennan samruna og lýsti honum út frá tækni- og hagræðingarsjónarmiðum sem hjónabandi stofnuðu af sjálfum guði almáttugum á himnum.

Marchionne segir í viðtalinu við Financial Times að sameiningin muni þýða samlegðaráhrif sem meta mætti til árstekna upp á minnst milljarð evra á ári. Þessi samlegðaráhrif væru meðal annars þau að Fiat og Opel gætu notað sömu undirvagna í bíla í B og C flokkum. Að auki fengi nýja fyrirtækið aðgang að undirvögnum Fiat í A-flokki (smábílaflokki) þar með töldum undirvagni Fiat 500 og loks einnig undirvagni hins nýja og velheppnaða Opel Insignia.

Í áætlun Marchionne er ekki gert ráð fyrir lokun verksmiðja í tengslum við sameininguna. Verði hins vegar óhjákvæmilegt að fækka starfsfólki skal fækkunin deilast sem jafnast milli  Þýskalands og Ítalíu. Standist fyrirætlunin skoðun samkeppniseftirlits Evrópusambandsins og falli hún bæði stjórmála- og verkalýðsöflum í geð, mun hið nýja fyrirtæki sem hlotið hefur vinnuheitið Fiat/Opel, yfirtaka rekstur 10 bílaverksmiðja General Motors í Evrópu og 11 verksmiðja Fiat á Ítalíu. Helstu markaðssvæði nýja risans verða auk Evrópu, Bandaríkin og S. Ameríka að mati Sergio Marchionne.

Ekki er ljóst hver verða afdrif ýmissa smærri bílamerkja við þessa fyrirhuguðu sameiningu - merkja eins og Saab og Jeep, sem tilheyra GM og Alfa Romeo, Maserati og Ferrari sem tilheyra Fiat. Þá er heldur ekki ljóst hvort verkalýðsfélög sem að málum koma muni samþykkja stofnun þessa „guðdómlega hjónabands.“ Í það minnsta hefur starfsmannasamband Opel lýst efasemdum sínum með það að Fiat verði stóreigandi í Opel. Sambandið óttast að sameining þýði lokun starfsstöðva og hópuppsagnir. Þá telja margir innan starfsmannasambands Opel að Fiat sé einfaldlega að reyna að læsa klónum í milljarðalán sem þýska ríkið hefur lofað að greiða út til Opel um leið og nýr eigandi í stað General Motors er fundinn.

General Motors í Detroit og GM Europe í Zürich hafa sent frá sér minnisblað um hvað það er í þessu dæmi öllu sem sé til sölu. Það er í stuttu máli allar verksmiðjur og starfsstöðvar Opel í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi og allar verksmiðjur beggja í öðrum Evrópulöndum að verksmiðju GM í St. Pétursborg í Rússlandi undantekinni. Chevrolet vörumerkið í Evrópu og allt sem því tengist  er ekki til sölu. Saab í Svíþjóð er hins vegar ekki nefnt á nafn í minnisblaðinu.