Samstilltar verðhækkanir íslensku flugfélaganna

The image “http://www.fib.is/myndir/FIB-forsida.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Í nýjasta hefti FÍB-blaðsins sem berst félagsmönnum í pósti í dag, mánudaginn 13. nóvember, er fjallað ítarlega um miklar hækkanir fargjalda sem orðið hafa hjá Icelandair og Iceland Express á síðustu 2-3 árum. Bent er á að skattar og gjöld félaganna, sem þau leggja ofan á fargjöld, hafi hækkað um allt að 147% og að lægstu fargjöld hafi hækkað um 50%.

Í FÍB-blaðinu er fullyrt að flugfélögin tvö hafi hækkað gjöld sín með samstilltum aðgerðum. Sýnt er hversu samstíga þau hafi verið í hækkunaraðgerðum sínum eftir að nýir eigendur komu að Iceland Express í árslok 2004. Bent er á náin viðskiptasambönd og tengsl milli eigenda flugfélaganna tveggja.

Meðal annars kemur fram í FÍB-blaðinu að skattar og gjöld flugfélaganna tveggja séu nánast sömu krónutölur og að félögin innheimti yfirleitt tvöfalt til þrefalt hærri skatta og gjöld en flugfélög á sambærilegum leiðum innan Evrópu.

Í FÍB-blaðinu eru líkur leiddar að því að samstilltar verðhækkanir flugfélaganna hafi ekki síst tryggt afar góða afkomu Icelandair, sem hafi síðan stuðlað að háu söluverði þess nýlega. Bent er á að eigendur Iceland Express hafi hagnast um einn milljarð króna á sölu Icelandair vegna eignaraðildar sinnar að FL Group og því hafi góð afkoma Icelandair skipt þá miklu máli fram að sölunni.