Sektaður um 95 þúsund evrur

Finnskur viðskiptajöfur sem heitir Anders Wiklöf keyrði á 77 km hraða á klst. þar sem leyfður er 50 km hraði. Atvikið varð á vegi út úr Mariehamn á Álandi en Áland er hluti af Finnlandi. Finnska lögreglan hefur nú sektað manninn fyrir brotið og er honum gert að greiða 95 þúsund evrur. Það er svo vegna þess að umferðarsektir eru tengdar árstekjum og Wiklöf þessi er mjög tekjuhár.

Anders Wiklöf segir í samtali við dagblaðið Álandstíðindi að rétt sé að hann hafi keyrt á 77 kílómetra hraða á vegarkaflanum og ekki áttað sig á því. Hann viðurkennir brot sitt fúslega en telur sektargreiðsluna algerlega út í hött. Hann vilji fremur leggja upphæðina til endurbóta í heilsugæslumálum eða til vistunar barna eða gamals fólks, en lögin séu eins og þau eru og því verði ekki breytt hér og nú. Þó bendir hann á að hefði hann verið sektaður fyrir sama brot í Svíþjóð hefði sektin orðið um það bil 450 evrur.

Hann segist ekki beint krefjast þess að tekjutenging sekta sé aflögð en í nafni almennrar sanngirni hljóti að þurfa að setja einhverskonar þak á tekjutengdar sektargreiðslur því að þetta sé út úr öllu korti.