Sergio Marchionne sakar VW um undirboð

Fiat/Chryslers forstjórinn Sergio Marchionne hélt því fram á dögunum að Volkswagen misnoti evrukrísuna til að snarlækka verð á nýjum bílum í Evrópu. Yfirlýsingum Marchionne hefur valdið miklum titringi og forvígismenn VW krefjast þess að Marchionne segi af sér sem stjórnarformaður ACEA sem eru Samtök evrópskra bílaframleiðenda.

Sergio Marchionne hefur gagnrýnt markaðstilburði VW og einnig þýska og franska stjórnmálamenn sem hann segir neita að viðurkenna vandamálin í evrópskum bílaiðnaði  m.a. offramleiðslu.   

Innan bílaiðnaðarins er það nánast regla að samkeppnisaðilar tjá sig ekki neikvætt hver um annan, alla vega ekki opinberlega.  En Sergio Marchionne er þekktur fyrir opinskáar yfirlýsingar og það gerði hann all hressilega í viðtali við New York Times og International Herald Tribune í vikunni fyrir verslunarmannahelgina.

Í viðtalinu sagði Marchionne að mikil örvænting einkenndi ástandið í Evrópu.  Umframframleiðsla og evrukreppann hefði dregið úr sölu á nýjum bílum með þeim afleiðingum að bílaframleiðendur hafi nauðugir lækkað verð til að örva sölu.  Verðstríð sé á markaðnum með þeim afleiðingum að framleiðendur séu að selja nýja bíla með verulegu tapi.

,,Ég hef aldrei upplifað jafn alvarlegt ástand áður. Öll vandamálin sem hafa plagað bílaiðnaðinn á liðnum árum hafa bara versnað.  Frakkar og Þjóðverjar neita að viðurkenna vandamálið og halda áfram óbreyttri framleiðslu.  Það verða allir að draga úr framleiðslu,“  sagði FIAT stjórinn í NYT.

Stephan Gruehsem sem er upplýsingastjóri hjá Volkswagen hefur tjáð sig um yfirlýsingar Marchionne og honum er ekki skemmt.  Ítalski forstjórinn virðist hafa gengið fram af Wolfsburg í NYT viðtalinu.

  ,,Verðþróunin er komin út í hreina vitleysu og sama á við um framlegðina af greininni“, sagði Marchionne í NYT.

Nokkrir sérfræðingar hafa fjallað með svipuðum hætti og Marchionne um ástandið í evrópska bílaiðnaðinum og telja að VW sé ekki aðeins þátttakandi heldur leiði einnig verðstríðið.  Á franska markaðnum getur VW boðið sínum viðskiptavinum mun hagstæðari fjármögnunarkjör (vextir um 1,5%) en frönsku og ítölsku samkeppnisfyrirtækin.  Þetta er vegna sterkar fjárhagslegrar stöðu VW og góðs lánshæfismats hjá fjármálafyrirtækjum.  VW hefur náð að auka markaðshlutdeild sína í Evrópu um 1,3% og er nú með 23,9% af markaðnum.

Volkswagen hefur notið góðs af veikingu evrunnar.  Lágt evru-gengi styrkir þýskan útflutningsiðnað. 

Stephan Gruehsem hjá VW sagði í viðtali við Wall Street Journal í síðustu viku að Marchionne, sem er núverandi stjórnarformaður í Samtökum evrópskra bílaframleiðenda, ACEA, ætti að víkja sem formaður. ,,Við skorum á hann að segja af sér.“.

Stjórnarformennskan í ACEA skiptist á tveggja ára fresti á milli bílaforstjóranna frá Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Dieter Zetsche (Daimler) var formaður 2010/2011 og á undan honum var Carlos Ghosn (Renault/Nissan) formaður.