Sérstakt gjald lagt á mest mengandi bifreiðar í London

Borgarstjóri Lundúnaborgar, Sadiq Khan, hefur gefið það út að frá og með 23. október n.k.  verði lagt á svokallað T-gjald á mest mengandi bifreiðar sem aka um ákveðin svæði borgarinnar. Málið lítur að mengun af völdum NO 2 eða köfnunarefnisdíoxíðs.

Reglugerð þessi mun falla undir díselbifreiðar árgerð 2005 og eldri og er megintilgangur hennar að sporna við mengun í borginni.

Til að fylgja þessu eftir verður eftirlit hert í borginni og eins verður notast við eftirlitsmyndavélar. Eflaust munu einhverjir ökumenn aka um önnur svæði til að komast hjá gjaldinu sem nemur rúmlega 2500 íslenskra króna.

Khan borgarstjóri segir að líta verði á ört vaxandi mengun í borginni alvarlegum augum og vinna gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Læknisfræðilegar rannsóknir hafa leitt í ljós að árlega deyja um tíu þúsund manns sem rekja megi til mengunar í borginni.

Mikil umræða um sama mál hefur farið  fram í mörgum löndum um nokkurt skeið. Í Noregi til að mynda tók í gildi bann í janúar sl. þar sem díselbílum er óheimilt að aka um viss svæði í miðborginni tvo daga vikunnar. Ástæða  bannsins er sú sama sem senn tekur gildi í Lundúnaborg síðar á árinu.