SFF í vörn fyrir samhæfða verðstefnu tryggingafélaganna

Líkt og fram kemur í frétt hér á undan hefur FÍB sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna hagsmunagæslu Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga á vátryggingamarkaði.

Upphaf kvörtunarinnar má rekja til andsvara Katrínar Júlíusdóttur framkvæmdastjóra SFF í grein á Vísir.is þann 8. september við grein framkvæmdastjóra FÍB þann 2. september í sama miðli, um skort á verðsamkeppni og stöðuga hækkun iðgjalda ökutækjatrygginga. 
 Framkvæmdastjóri SFF gerir í sinni grein athugasemdir við grein framkvæmdastjóra FÍB og færir fram röksemdir til varnar verðlagningu íslenskra vátryggingafélaga. Grein framkvæmdastjóra SFF var svarað af hálfu framkvæmdastjóra FÍB þann 10. september. Gerðar voru athugasemdir við röksemdir SFF en auk þess bent á tölulegar rangfærslur í grein Katrínar.

Sjóvá

Í framhaldi af þessum skrifum fól FÍB lögmanni að kanna hvort fyrirsvar framkvæmdastjóra SFF varðandi verðlagningu aðildarfélaga sinna á iðgjöldum ökutækjatrygginga væri samkeppnishindrandi og bryti í bága við samkeppnislög. Niðurstaðan var sú að senda kvörtun til Samkeppniseftirlitsins varðandi opinbera hagsmunagæslu SFF fyrir hönd samkeppnisfyrirtækja á íslenska vátryggingamarkaðnum.

 

Í kvörtun FÍB til Samkeppniseftirlitsins segir m.a.:

TM

FÍB telur að sú hagsmunagæsla af hálfu SFF fyrir hönd félagsmanna sinna, sem birtist í grein framkvæmdastjóra samtakanna þann 8. september sl., brjóti gegn 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 10. gr. laganna, og verði ekki réttlætt með vísan til 15. gr. laganna. Þá vísast einnig til ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 17/2004. Þannig fái hvorki samræmst samkeppnislögum né fyrrgreindri ákvörðun að verðstefna íslenskra vátryggingafélaga sé varin opinberlega af hálfu SFF. Þetta virðist einnig vera skoðun SFF með hliðsjón af leiðbeiningum samtakanna um fylgni við samkeppnislög sem finna má á heimasíðu SFF.

 

Vörður

FÍB fer þess á leit að Samkeppniseftirlitið taki til sjálfstæðrar rannsóknar hvort framangreind hagsmunagæsla SFF fyrir höndaðildarfélaga sinna brjóti gegn ákvæðum samkeppnislaga, sbr. einnig ákvörðun nr. 17/2004. FÍB gætir hagsmuna tæplega 18 þúsund bifreiðaeigenda á Íslandi og hefur þar af leiðandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir hönd félagsmanna sinna.

 

VÍSVátryggingamarkaður er fákeppnismarkaður og miklar aðgangshindranir eru að honum, sbr. m.a. skýrslur Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 og 2/2011. Í hópi skaðatrygginga vega ökutækjatryggingar þyngst. Ökutækjatryggingar eru lögboðnar og mynda stóran hluta útgjaldaliða á heimilum landsmanna. Því er afar brýnt fyrir neytendur að sem virkust samkeppni ríki á markaðnum. Viðbrögð sameiginlegra hagsmunasamtaka vátryggingafélaga þar sem verðstefna þeirra er varin sameiginlega fyrir hönd þeirra allra eru ekki til þess fallin að styrkja þá trú að virk samkeppni ríki á vátryggingamarkaði. Þvert á móti benda fyrirliggjandi upplýsingar, sem m.a. er gerð grein fyrir á fskj. 1 og 3, að þegjandi samhæfing sé ríkjandi á markaðnum.