Sixt býður upp á rafbíla

Sixt, stærsta bílaleiga Þýskalands, og raforkufyrirtækið RWE hafa tekið höndum saman um leigu á rafmagnsbílum í tilraunaskyni. Um verður að ræða tvær gerðir rafbíla, þ.e. Karabag 500 E, sem er Fiat 500, og Micro-Vett Fiorino E sem einnig er Fiat.  Tilraunaverkefnið hófst 3. maí og stendur í eitt ár. Tilgangurinn er sá að kanna kosti þess að leigja út rafbíla og móttökur viðskiptavina.

http://www.fib.is/myndir/Fiorino-rafbill.jpg
http://www.fib.is/myndir/Fiat500rafbill.jpg
Fiat rafbílarnir sem Sixth bílaleigan leigir út í
nokkrum þýskum borgum.

 Til að byrja með verða bílarnir til leigu í borginni Essen fram til 30. júní og í framhaldi af því í borgunum Munchen, Hamborg, Dresden og Berlín. Starfsmenn Sixt

munu veita viðskiptavinum tæknilega aðstoð og útskýra fyrir þeim hvernig eigi að hlaða rafgeymana í sérstökum hleðslustöðvum RWE. Dagsleiga fyrir Karabag 500 E verður frá 59 evrum og 79 evrum fyrir Micro-Vett Fiorino.

Því til viðbótar bætist orkukostnaður sem er þó einungis 4 evrusent á hvern ekinn kílómetra. Bílarnir eru búnir leiðsögutækjum sem sýna m.a. staðsetningu allra hleðslustöðva RWE í Þýskalandi. Hægt er að panta rafbíl til leigu á heimasíðu Sixt, www.sixt.de.

Að sögn Guðmundar Orra Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sixt á Íslandi, verður ekki boðið upp á þennan möguleika á Íslandi á þessu ferðasumri. Hann segir það spennandi kost í framtíðinni ef rafbílavæðing verður að veruleika hér á landi.