Sjálfvirkur neyðarhemill eykur öryggið

Ný fjölþjóðleg rannsókn Euro NCAP sýnir að sjálfvirk neyðarhemlun tengd tölvusjón í bílum fækkar aftanákeyrslum um næstum 40 prósent. Rannsóknin nær til búnaðarins í sinni einföldustu mynd - er kallast „City safety“ eða borgaröryggi. Hann virkar á hraða á bilinu 30- 50 km á klst.

Aftanákeyrslur í þéttri umferð eru meðal algengustu umferðaróhappa og afleiðingarnar eru mikið eignatjón og stundum umtalsverð og langvinn meiðsli á fólki. Rannsóknin sem  kallaðist því langa nafni „Effectiveness Of Low Speed Autonomous Emergency Braking In Real-World Rear-End Crashes” (gagnsemi sjálfvirkrar lághraða-hemlunar í raunverulegum afanákeyrslum) tók til bæði raunverulegra óhappa og til raunverulegra atvika þar sem aftanákeyrsla átti sér ekki stað. Rannsökuð voru slys og atvik í nokkrum ríkjum og er niðurstaðan sú að ef umræddur búnaður væri í öllum bílum myndi aftanákeyrslum fækka um 38 prósent.

Samkvæmt nýjustu matsreglum Euro NCAP er margskonar öryggisbúnaður, eins og skrikvörn og sjálfvirk neyðarhemlun í nýjum bílum orðin forsenda þess að bíll nái fimm stjörnum í öryggismati stofnunarinnar. Volvo var fyrstur bílaframleiðenda til að setja slíkan búnað (City safety) í bíla sína sem staðalbúnað og síðan hefur tegundunum fjölgað svo mjög að fáir nýir bílar eru lengur án hans, ekki einu sinni þeir ódýrustu. Á Íslandi eru því miður fremur fáir bílar með búnaðinum, enda hefur endurnýjun bílaflotans verið mjög hæg síðustu árin og bílaflotinn á Íslandi orðinn einn sá elsti að meðaltali í álfunni.