Sjóvá og Ístak hanna 2+2 veg úr Reykjavík á Selfoss

http://www.fib.is/myndir/Sudurlandsvegur.jpg
Svona mun nýi Suðurlandsvegurinn frá Sjóvá /Ístaki líta út.

Í opnu Morgunblaðsins í dag, miðvikudag er greint frá hugmyndum tryggingafélagsins Sjóvár og verktakafyrirtækisins Ístaks um að leggja hraðbraut eða 2+2 veg frá Reykjavík austur á Selfoss. Þessir aðilar hyggjast annast alla fjármögnun sem og framkvæmd verkefnisins sem kosta mun samkvæmt áætlun 7,5 til 8 milljarða króna. Hugmyndir um nýjan Kjalveg sem lagður yrði í einkaframkvæmd voru kynntar fyrir nokkrum vikum en þeir sem vildu leggja Kjalveginn vildu að innheimta gjald af farartækjum sem um veginn færu. Sjóvá og Ístak viðra afturámóti engar hugmyndir um slíkt. Sjá fréttavef Morgunblaðsins hér.

Alls ekkert samasemmerki er milli einkaframkvæmdar í vegagerð og sérstakrar gjaldtöku af ökumönnum fyrir að nota síðan veginn. Ríkið innheimtir árlega gríðarlegar fjárhæðir af bifreiðum og bifreiðanotkun en einungis rúmlega þriðjungur alls þess fjár fer til viðhalds og nýframkvæmda í vegakerfinu. Tæpir 2/3 hlutar fara til annarra hluta.

Þannig innheimti ríkið á síðasta ári um 50 milljarða króna af bílum og bílanotkun og í því ljósi getur það varla talist neitt athugavert að ríkið greiði s.k. skuggagjöld fyrir umferð um veg sem einkaaðilar hafa lagt, t.d. samkvæmt umferðarteljara. Í ljósi ofannefndrar gríðarlegrar gjaldtöku ríkisins af bílum og umferð er hinsvegar varla ásættanlegt að fólk þurfi að taka upp veskið og borga í hvert sinn sem farið er um suma vegi landsins en ekki um aðra.

Í ljósi þessarar miklu gjaldtöku ríkisins af bíleigendum og þess mikla ávinnings sem allt samfélagið getur haft og hefur af góðum og skynsamlegum nýframkvæmdum í vegakerfinu er sérstök gjaldtaka af sumum samgöngumannvirkjum í raun óviðunandi. Bifreiðaeigendur eru einfaldlega búnir að borga ríkinu þessi mannvirki margfaldlega án þess að það hafi séð ástæðu til að standa skila á þeim.

Hvalfjarðargöngin eru dæmi um þetta. Hvalfjarðargöngin eru mikil samgöngubót sem hafa stytt umtalsvert ökuleiðina norður í land og tengt Vesturland og höfuðborgarsvæðið saman í eitt atvinnusvæði. Samfélagslegur ávinningur þeirra er því verulegur og hafinn yfir allan vafa. Því er gjaldtaka af ökumönnum sem aka um göngin í rauninni óviðunandi og ekkert annað en aukin skattheimta. Og ekki bætir það úr skák að Spölur, félagið sem boraði göngin og á og rekur þau, er að stórum hluta í eigu opinberra aðila (Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar o.fl).

Sjóvá og Ístak hafa látið hanna nýja veginn og eins og fram kemur í opnufrétt Morgunblaðsins er kostnaðaráætlunin 30-40% lægri en sú sem Vegagerðin hefur gert. Mismunurinn felst ekki síst í því að í stað mislægra gatnamóta og safnvega á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss verði hringtorg, sem með aukinni umferð mætti breyta og gera mislæg vegamót í þeirra stað. Þá eru akbrautir til gagnstæðra átta mun nær hvor annarri (2,5m) og aðskildar með tvöföldu vegriði eins og algengast er í Evrópu, í stað mun breiðari geilar og engra vegriða eins og sjá má á nýja tvöfalda hluta Reykjanesbrautinnar.

Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá lætur að því liggja í samtali við Morgunblaðið að ætlunin sé, fái þeir að leggja veginn, að ljúka verkinu í einu lagi á sem allra skemmstum tíma eða þremur árum. Gangi það eftir verður ávinningur bæði framkvæmdaaðila en ekki síst samfélagsins alls verulegur. Miklir fjármunir munu þá ekki liggja árum saman bundnir í framkvæmdum og mannvirkjum sem ekki nýtast til neins. Sú aðferð sem löggjafar- og fjárveitingavaldið hefur til þessa beitt í vegagerð felst í því að veita fé til tiltekinna vegaframkvæmda í slumpum hingað og þangað, er nefnilega mjög dýr þegar upp er staðið. Hönnunar- og framkvæmdatilaga Sjóvár og Ístaks á það að öllu leyti skilið að verða tekin mjög alvarlega. Sjá einnig heimasíðu Sjóvár.

Stefán Ásgrímsson