Skattar á bíleigendur hækka um 12,5%

Alþingi Íslendinga samþykkti undir kvöldmat fimmtudaginn 11. desember  sl. að hækka eldsneytisgjöld og bifreiðagjald um 12,5%.  Athygli vakti að engum andmælum var hreyft þegar frumvarpið fór í gegnum þrjár umræður á u.þ.b. 80 mínútum.  Þessir auknu skattar hafa í för með sér um 20 þúsund króna aukakostnað vegna reksturs meðalfjölskyldubíls á einu ári.  Hækkun skatta á bensín eykur álögur um 7.70 krónur á lítra en hækkunin á dísilgjaldinu eykur álögur á neytendur sem nota dísilolíu um 6.40 krónur á hvern lítra.  Bifreiðagjöldin sem innheimt eru tvisvar á ári hækka um 12,5%.

Olíufélögin tóku skjótt við sér.  Föstudaginn 12. desemberog hækkuðu öll félögin útsöluverðið á bensíni um 6.60 krónur á lítra og dísilolíuna um 6.30 krónur á lítra. 

FÍB hefur áður vakið athygli á því að álagning á eldsneyti hefur aukist umtalsvert á þessu ári og þá sérstaklega frá miðju ári.  Heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu hefur lækkað á heimsmarkaði á liðnum vikum og  gengi íslensku krónunnar hefur styrkst verulega í desember.  Oíufélögin hafa verið að lækka útsöluverð á eldsneyti í áföngum í desember.  Ef við skoðum verðmyndunina á eldsneyti á liðnum föstudegi (12.12.08) þegar öll olíufélögin hækkuðu  í kjölfar skattahækkunar stjórnvalda þá kemur í ljós að þau nýttu sér nýja skatta til að auka við eigin álagningu. Álagning á bensín var þann dag 7.50 krónum hærri á hvern lítra af bensíni samanborið við meðaltals álagninguna árið 2007 og 3 krónum hærri miðað við meðaltal ársins sem er að líða.  Aukin álagning á dísilolíuna er 11 krónur á lítra miðað við 2007 og 8.50 krónur á lítra miðað við álagninguna það sem af er af 2008.  Allar þessar tölur eru uppfærðar til verðlags í dag með vísitölu neysluverðs. 

FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við samþykkt laga um auknar álögur á fjölskyldurnar í landinu með hækkun skatta á eldsneyti með tilheyrandi hækkun vístölu neysluverðs og margföldunaráhrifum á aðrar skuldir almennings.  Sama á við um hækkunina á bifreiðagjaldinu sem er ósanngjarn skattur sem lagður er á bifreiðar miðað við þyngd án tillits til verðmætis eða mengunar.  Til viðbótar gerir FÍB alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð olíufélaganna sem nýta sér skattahækkunina til þess að viðhalda hárri álagningu á eldsneyti sem er nauðsynja vara.  Álagning á eldsneyti hér á landi er sú hæsta sem þekkist í norðurhluta Evrópu.