Skattar af bifreiðum og umferð námu 80 milljörðum 2018

Hvað eru bifreiðaeigendur hér á landi að borga mikið í skatt árlega. Hvernig er það sundurliðað og hversu há upphæð fer beint til vegamála og uppbyggingar í vegkerfinu.  Þetta var umræðu efni í Býtinu á útvarpsstöðunni Bylgjunni fyrir helgina og var Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, þar til svara.

Fram kom í máli Runólfs að gróflega reiknað voru vörugjöld sem tekin voru af nýjum bílum á síðasta ári um 9 milljarðar. Almennt vörugjald af bensíni nam 4,8 milljörðum, sérstakt vörugjald af bensíni nam 7.7 milljörðum og olíugjald sem leggst á dísilolíu var 11.9 milljarðar. Þá voru tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi, samanlagt af bensíni og olíu, um 3,3 milljarðar á síðasta ári.  Fleira mætti nefna en bifreiðagjald sem hugsað var sem bráðabirgðaskattur til eins árs fyrir 20 árum síðan nam rúmum 7 milljörðum.

,,Við getum alveg sagt að skattar af bifreiðum og umferð er um 80 milljarðar á ári og samt er ekki allt talið til.  Við verðum að hafa í huga að það greiðist virðisaukaskattur af öllum nýjum bílum sem og öllu eldsneytinu sem við kaupum.

Ef skattheimtan er skoðuð í heild sinni er ekki verið að taka til alla skatta sem lúta af rekstri bílsins. Þar er hægt að nefna bílgreinina í heild sinni, allt sem lítur að þjónustu, eins og bílaverkstæði og bílasölur. Þessi liður velti 174 milljörðum árið 2017,“ sagði Runólfur Ólafsson m.a. í viðtalinu.

Heyra má viðtalið við Runólf Ólafsson í heild sinni hér. Það hefst þegar 1:45,35 klst. er liðin af spiluninni.